135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[14:34]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að ég hafi nú kannski ekki beinlínis talað um lögbindingu á varnarsamningi frá 1951 vegna þess að ég veit hvernig þau mál eru, heldur samningsins sem gerður var við brottför hersins 2006 sem er sami samningur. (Gripið fram í.) Og ber þá að líta á hann sem lögbundinn ef utanríkisráðherra segir það, það er ágætt að fá það fram hér.

Það er líka mikilvægt að fá fram þær upplýsingar hjá hæstv. utanríkisráðherra að íslenskum lögum sé á engan hátt ýtt til hliðar og það sé þá sjálfstæð ákvörðun, eins og hún lætur koma fram hér, íslenskra stjórnvalda hvaða varnaræfingar eru haldnar, hvenær þær eru haldnar og þá á grundvelli íslenskra laga og reglna. Þá geng ég út frá því að m.a. sé gert ráð fyrir samstarfi eða samþykki þeirra landeigenda og sveitarfélaga sem hlut eiga að máli þegar svo ber undir. Eins og ég hef skilið málið til þessa þá hefur það ekki endilega verið gert. En það væri fróðlegt að fá það upplýst af hálfu hæstv. utanríkisráðherra hvort hún líti svo á að það sé skilyrði fyrir því að hægt sé að halda varnar- eða heræfingar að slíkt samþykki liggi fyrir.

Annað mál er svo spurningin um umfang hernaðaræfinga. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hverfa frá þeirri stefnu. Það er í takt við þær áherslur sem við í Vinstri grænum höfum haft að hér eigi ekki að fara fram hernaðaræfingar, það sé ekki nauðsynlegt fyrir öryggis- og varnarstöðu okkar. Af þeirri ástæðu einni er að okkar mati óþarft að vera með þetta inni.

Ég skil hins vegar það sjónarmið sem liggur á bak við hjá þeim sem aðhyllast Atlantshafsbandalagið og (Forseti hringir.) telja að við eigum að vera innan þess, að þetta sé nauðsynlegt.