135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[14:36]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að varðandi heimild til heræfinga hér á landi — í frumvarpinu er kveðið á um hvernig staðið skuli að því eða hver skuli bera ábyrgð á því — er ekki verið að víkja neinum reglum eða lögum sem almennt gilda um slíkt til hliðar. Það verður auðvitað að sækja um þau leyfi sem nauðsynleg eru til þess að slíkar æfingar geti farið fram.

Aðeins varðandi varnarsamninginn frá 1951. Hann var settur í lög og í honum er kveðið á um hvernig með skuli fara ef menn vilja segja honum upp og það hefur ekki verið gert. Hann er því í fullu lagagildi þrátt fyrir að gerð hafi verið við hann bókun árið 2006.

Aðeins vegna þess sem þingmaðurinn nefndi hér um 10. gr. frumvarpsins, um ráðningarmál. Í þeirri grein er fyrst og fremst kveðið á um ákveðið vistaskiptafyrirkomulag vegna þess að verið er að flytja starfsmenn frá Ratsjárstofnun yfir til Varnarmálastofnunar og svo einhverja starfsmenn úr utanríkisráðuneytinu. Það er til þess að reyna að gera þetta sem snurðulausast gagnvart þeim starfsmönnum.

Hvað varðar bann við verkföllum, þá er það ákvæði sem er í 11. gr. Það er grundvallað á öryggishagsmunum og er sambærilegt við ákvæði sem nú eru í lögreglulögum og lögum um Landhelgisgæsluna.