135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:20]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð orð og viðurkennandi fyrir framgöngu mína og ef út í það er farið þá get ég sagt eitthvað hliðstætt við hann því hann er nú talinn vera á við stærstu jarðýtur þegar hann fer í gang í sumum málum. Sumum finnst jafnvel óþægilegt að verða að hrökkva undan þegar hann fer um. Já, það má hugsa sér þetta og þetta var athyglisverð samlíking hjá hv. þingmanni með mongólsku hersveitirnar.

Ég minnist þess þegar ég var ungur maður þá hreifst ég reyndar af sögum um Djengis Khan og hvað sveitir hans fóru hratt yfir og voru vel ríðandi þingmenn, nei [Hlátrasköll í þingsal.] hermenn. Og úr því að við erum farin að ræða þetta hér þá væri kannski þörf á slíkri liðseflingu hér til varnar þjóðinni, við ættum þá að gera eins og Djengis Khan og koma okkur upp vel ríðandi riddaraliði sem gæti m.a. farið og varið borgara á Suðurlandi og í kjördæmi hv. þm. Árna Johnsens. Þá væri svolítill svipur á þessu. Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum. Förum og búum okkur til riddaralið.