135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:24]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur aldrei neinn þurft að velkjast í vafa um stefnu vinstri grænna hvað varðaði hersetu Bandaríkjamanna hér á landi. Hins vegar þóttu það tíðindi þegar Bandaríkjamenn ákváðu sjálfir á eigin forsendum, reyndar sem við höfum haldið fram áður, að það væri engin ástæða til þess að vera hér með erlendan her. En hann var hér að þrábeiðni íslenskra stjórnvalda. Sjónarmið okkar voru alltaf klár í þeim efnum. (Gripið fram í.) Já, það má segja að Bandaríkjamenn hafi tekið þau sjónarmið upp og fallist á þau og rök vinstri grænna í þeim efnum.

Það sem ég vék að og bið hv. þm. Árna Pál Árnason að hugleiða er að nú erum við líka að forgangsraða fjármunum til öryggismála. Þar horfi ég á almenna löggæslu, almennar varnir gegn fíkniefnanotkun, fíkniefnainnflutningi og ofbeldi í samfélaginu. Þá veltir maður fyrir sér, hvar á fyrst að bera niður?

Við höfum heyrt ákall frá löggæslunni um allt land, ekki síst löggæslunni á Suðurnesjum, en líka löggæslunni hringinn í kringum landið. Það er skorið niður fjármagn til sýslumannsembættanna. Það eru skertar fjárveitingar til almennrar löggæslu í landinu. Og þá segi ég: Væri ekki nær að verja hluta af þessu fjármagni, 1,5 milljörðum kr. til eflingar almennri löggæslu í landinu? Mundi það ekki verða til að skapa og efla meira öryggi fyrir hinn almenna borgara frekar en að stofna til útgjalda (Forseti hringir.) fyrir æfingar erlendra herja á íslenskri (Forseti hringir.) grund?