135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:28]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi þá tem ég mér almennt ekki að segja að einhverjir séu með vitlausan málflutning eða annar með vitmeiri málflutning o.s.frv. Ég ætla ekkert að gefa málflutningi hv. þingmanns neina einkunn í því sambandi. Hv. þingmaður getur fundið það upp hjá sjálfum sér.

En ég beini athygli að því að við erum jú að horfa á öryggismál borgaranna, öryggismál þjóðarinnar, og hvar skórinn kreppir þar mest. Ég vitnaði til þess og ég gæti rakið mörg bréf og ályktanir frá samtökum lögreglumanna vítt og breitt um landið þar sem þeir benda á hættuna af því hversu mikinn fjárskort þeir búa við og að skipulag sé með þeim hætti að öryggi sé jafnvel stefnt í voða. Ég veit að hv. þm. Árni Páll Árnason hlýtur að hafa fengið hliðstæð erindi.

Í máli mínu vék ég fyrst og fremst að fjárhagslegri hlið þessa máls. Það er mín skoðun að við gerðum miklu betur í því að verja þessum 1,5 milljörðum, eða að minnsta kosti hluta af þeim, til þess að styrkja og efla innlenda löggæslu og þjónustu lögreglunnar í landinu. Það mundi skapa meira öryggi og auka öryggi borgaranna meira en að verja þessum 1,5 milljörðum til þess að kosta æfingar erlendra herja (Forseti hringir.) hér á landi og skuldbindingum í þá veruna.