135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:31]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get í upphafi ræðu minnar ekki stillt mig um að hrósa hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir framlag hans til umræðunnar, sérstaklega í merku andsvari sínu við hv. þm. Árna Johnsen þar sem hann náði að færa þessa umræðu upp á annað og hærra plan en við höfum áður séð í umræðunni í dag. Það má segja um hv. þingmann að hann bregðist aldrei aðdáendum sínum. Ég er einn af þeim þrátt fyrir að ég geti lýst því yfir að ég sé líklega efnislega honum ósammála um hvað sem er. En þá tel ég að í þessu merka andsvari hans áðan hafi umræðan náð miklum hæðum.

Ég ætlaði ekki að hafa langa ræðu um efnisatriði þessa ágæta frumvarps til varnarmálalaga. Ég tel það efnislega mjög gott og aðrir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa viðrað sjónarmið okkar til þessa frumvarps sem við styðjum.

Ég vil þó taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal sem vék í ágætri ræðu sinni að þeim skatt- og tollundanþágum sem gilda um alþjóðastofnanir, heri og erlend ríki sem hafa starfsemi í öðrum ríkjum. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þingmanni um að líklega er það fyrirkomulag sem viðgengst hvað slíka starfsemi varðar gengið sér til húðar og að sínu leyti barn síns tíma. Það er ekki í samræmi við þau jafnræðissjónarmið sem við viljum starfa eftir að sumir greiði skatt vegna vinnu sinnar í tilteknu landi en aðrir ekki.

Við gætum t.d. hugsað okkur í löndum þar sem lögregla hefur með höndum einhverja starfsemi og þar starfa lögreglumenn sem greiða skatta og skyldur af launum sínum en til hliðar við þá starfa t.d. friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna sem gegna sambærilegum störfum og lögreglumennirnir en njóta skattfrelsis.

Mér fannst þessi ábending hv. þingmanns góð og tek undir áskoranir hans til hæstv. utanríkisráðherra um að velta þessum sjónarmiðum fyrir sér og koma þeim á framfæri á erlendum vettvangi þrátt fyrir að ég átti mig á að þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar og samningar við erlend ríki geri það væntanlega að verkum að við ein, Íslendingar, förum ekki að kljúfa okkur út úr því samkomulagi þess eðlis sem gildir á milli þjóðríkja. Ég vildi hins vegar taka undir sjónarmið hv. þingmanns.

Athugasemdir mínar við þetta frumvarp eru ekki efnislegar, þær eru fyrst og fremst lagatæknilegs eðlis. Inn á þessi atriði hefur að einhverju leyti verið komið í umræðunni. Ég er sammála því sjónarmiði sem hér hefur komið fram um 21. gr. frumvarpsins sem fjallar um skatt- og tollundanþágur, ég tel óþarft að rekja í þessu frumvarpi sem líklega verður að lögum frá Alþingi að tilteknir aðilar njóti skattfrelsis eða tollundanþágna samkvæmt öðrum lögum. Ég tel að það sé óþarfi að taka það fram í lögunum að samkvæmt öðrum lögum gildi þessar reglur.

Ég er þeirrar skoðunar almennt að lög eigi að vera skýr, skorinorð og hnitmiðuð og að í lagatextanum eigi menn ekki að eyða púðri í að segja hluti sem fyrir eru í lögunum. Ég tel það í samræmi við góða lagasetningarhætti að hv. utanríkismálanefnd fari yfir þetta ákvæði og taki þau sjónarmið sem þarna koma fram og finna má í öðrum lögum út úr frumvarpinu vegna þess að það er beinlínis óþarfi.

Í annan stað vil ég víkja að ákvæðum 5. gr. þar sem taldar eru upp 18 skilgreiningar á hugtökum sem koma fram í texta frumvarpsins. Ég held að allir séu sammála um nauðsyn þess að lög séu skýr og greinileg og að þeir sem þau lesa átti sig á efnisinnihaldi þeirra. Hins vegar hafa menn í gegnum tíðina komið slíkum hugtökum á framfæri í lögskýringargögnum, í greinargerðum, nefndarálitum og öðrum gögnum sem fylgja lögum. Ég tel óþarft að telja upp þessi hugtök í frumvarpinu og skýra þau í langri lagagrein sem er nr. 5 í frumvarpinu. Fyrir utan það tel ég kannski óþarfa að vera með skilgreiningar á ýmsum hugtökum sem þar koma fram. Ég held að enginn velkist í vafa um hvað Atlantshafsbandalagið er. Að sama skapi held ég að menn séu ekki í miklum vafa um hvað íslenska loftvarnakerfið eða varnarsamningurinn er, eða innihald hans.

Mér finnst óþarfi að þessi atriði komi fram í frumvarpinu. Á síðustu árum hefur verið tilhneiging til að setja skilgreiningar inn í frumvörp og í lagatexta. Að mínu mati eiga slíkar upplýsingar eða útskýringar miklu frekar heima í lögskýringargögnum en í lagatextanum sjálfum. Ég tel að þetta sé annað verkefni sem hv. þingmenn sem sæti eiga í utanríkismálanefnd ættu að taka til skoðunar, hvort ekki sé ástæða til að fella 5. gr. út í heild sinni. Telji menn ástæðu til að skilgreina þau hugtök sem þar koma verði það gert í nefndaráliti sem nefndin skilar frá sér þegar hún hefur lokið umfjöllun sinni um frumvarpið.

Eins og ég segi eru þetta bara fyrst og fremst lagatæknilegar ábendingar og athugasemdir sem mér fannst ástæða til að koma á framfæri í tengslum við þetta mál. Ég vona að þeim athugasemdum verði vel tekið. Að öðru leyti tel ég frumvarpið ágætlega unnið, og eins og aðrir félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum styð ég þá hugmyndafræði sem þar kemur fram og líst að öðru leyti efnislega vel á þetta mál.