135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:40]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá áhugaverðu og málefnalegu umræðu sem farið hefur fram í þingsalnum í dag um frumvarp til varnarmálalaga og þau sjónarmið sem hér hafa verið sett fram í umræðunni og ábendingar, sem full ástæða er til að fara betur yfir þegar málið fer til meðferðar utanríkismálanefndar Alþingis.

Ég er ekki viss um, virðulegur forseti, að mér takist að svara öllum álitaefnum eða leggja eitthvað inn í þá umræðu sem hér hefur verið vakin upp af ýmsum þingmönnum. En ég mun reyna að gera það eftir bestu getu.

Eins og ég sagði áðan í andsvari við hv. þm. Árna Þór Sigurðsson er ekki með þessu frumvarpi verið að lögfesta samninginn um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Það er ekki verið að lögfesta varnarsamninginn. Það er ekki verið að lögfesta heræfingar. Um er að ræða rammalöggjöf sem veitir heimild til heræfinga og segir fyrir um hvernig halda eigi utan um þau verkefni sem leiða af aðild okkar í Atlantshafsbandalaginu, sem leiða af varnarsamningnum eða öðrum samningum sem eru bindandi að þjóðarrétti og við höfum þegar gert. Með öðrum orðum, þessi verkefni eru unnin í dag en þau eru unnin án þess að um þau gildi nægilega skýr lög. Þess vegna er þetta frumvarp, þótt það sé að vissu leyti stefnumarkandi, fyrst og fremst rammi um framkvæmd á þeirri stefnu í varnarmálum sem ríkisstjórn og Alþingi markar eftir atvikum, eftir því hvernig menn vilja haga þeim hlutum.

Þá vík ég að því sem kom fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, sem er reyndar ekki hér núna. Hún spurði hvort einhver ágreiningur væri um öryggisgæsluna í Keflavík vegna þess að dómsmálaráðherra gerði hana sérstaklega að umtalsefni. Því er til að svara að opnað er fyrir það í frumvarpinu að þessi stofnun, Varnarmálastofnun, geti eftir atvikum og eðli máls og verkefna gert samninga við aðrar stofnanir sem fara með verkefni sem í eðli sínu eru borgaraleg. Það á t.d. við um löggæslu, svo dæmi sé tekið. Það er auðvitað fyllilega skoðunar virði að lögreglan í Keflavík sjái um alla öryggisgæslu á öryggissvæðinu ef mönnum býður svo við að horfa. Það er líka hægt að sjá fyrir sér að hægt sé að gera samninga á milli þessarar stofnunar og Neyðarlínunnar eða Flugstoða um afmarkaða þætti sem tryggt geti ákveðin samlegðaráhrif í rekstri þessara stofnana. Það er í sjálfu sér opið. Ramminn verður til með þessu frumvarpi, ef það verður að lögum, og síðan er það þessara stofnana að gera samninga um þessi verkefni.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarssonar setti fram það sjónarmið, sem er algjörlega gilt sjónarmið, að það væri ekki sjálfgefið að vista þennan málaflokk sem varnar- og öryggismálin eru í utanríkisráðuneytinu. Við vitum að víða um heim eru sérstök varnarmálaráðuneyti og þá eru þessi mál vistuð í slíku ráðuneyti. Við höfum ekki talið að um slíka starfsemi væri að ræða á þessu sviði að það réttlætti stofnun sérstaks ráðuneytis um málaflokkinn.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar, að víða um heim er skilið á milli þess sem lýtur að hinu ytra öryggi ríkja og svo hinu innra öryggi. Varnarmál eru að öðru jöfnu ekki í innanríkisráðuneytum. Við eigum því kannski ekki margra kosta völ, miðað við það að stofna ekki til sérstaks varnarmálaráðuneytis. Þess vegna hefur verið kosið, ekki í þessu frumvarpi heldur í reglugerð um Stjórnarráðið og í stjórnarráðslögum, að vista þennan málaflokk í utanríkisráðuneytinu. Þetta frumvarp breytir þar engu um. Það tekur algjörlega mið af reglugerðinni um Stjórnarráð Íslands eins og hún er í dag.

Hv. þm. varaði við þeirri þróun í stjórnsýslu að vald væri fært til stofnana frá ráðuneytum og ráðherrar væru orðnir klöguráðherrar en ekki framkvæmdaráðherrar. Ég tel að þetta sé í raun gild og góð umræða sem ástæða er til að velta svolítið fyrir sér, hvort úrskurðarvald sem er farið að liggja í æ ríkari mæli hjá ráðherrunum sé farið að gera þeim örðugt um vik að tjá sig um mál sem eðli málsins samkvæmt eru pólitísk og ráðherrar ættu því að geta úttalað sig um. Mér finnst það alveg gild umræða sem hér hefur komið upp, en hvort hún á við í þessu tilviki er ég ekki viss um. Ég sé ekki fram á að þarna yrði um einhver úrskurðarmál að ræða hjá utanríkisráðuneytinu vegna verkefna stofnunarinnar.

Hann nefndi líka að ekkert væri minnst á Alþingi í þessu frumvarpi og því væri ekki ætlað neitt hlutverk heldur væri það alfarið utanríkisráðherra og ráðuneytisins að móta stefnuna í öryggis- og varnarmálum. Ég lít ekki svo á að þetta frumvarp breyti því með neinum hætti. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Utanríkisráðherra mótar stefnu um framkvæmd varnarmála innan ramma laga þessara og ber ábyrgð á gerð hættumats á sviði varnarmála. Einnig ber utanríkisráðherra ábyrgð á mótun og framkvæmd öryggis- og varnarstefnu Íslands á alþjóðavettvangi.“

Með öðrum orðum lít ég svo á að það sé á ábyrgð ráðherrans að til sé stefna. Það er á hans ábyrgð að undirbúa hana og sjá til að þessi stefna sé til. En hverjir komi síðan að henni, það er ekki kveðið á um það í þessu frumvarpi. Það er þá lög og reglugerðir um Stjórnarráðið, þingskapalögin og stjórnarskráin, sem segja til um þá hluti en ekki þetta frumvarp í sjálfu sér.

Það er ekki rétt sem kom fram að Alþingi hafi engu hlutverki að gegna í þessu. Ég lít svo á að þar sem minnst er á utanríkismálanefnd Alþingis sé í raun um það að ræða að Alþingi hefur falið, ef svo má segja, utanríkismálanefnd ákveðin verkefni á þessu sviði. Það er kveðið á um það hvernig eigi að standa utanríkismálanefnd Alþingis skil á verkefnum þessarar stofnunar, m.a. í 20. gr. þessa frumvarps og í 23. gr. Það er því ekki alls kostar rétt að ekkert sé fjallað um hlutverk Alþingis í þessu frumvarpi.

Ég hef þegar svarað, virðulegur forseti, ýmsu sem kom fram í máli Árna Þórs Sigurðssonar. Að vísu vitnaði ég ekki alveg rétt í lagagreinar áðan þegar ég talaði um 10. gr. Ég ruglaði kannski saman 10. gr. og ákvæði til bráðabirgða um tilflutning starfsmanna sem nú eru hjá Ratsjárstofnun. En í 10. gr. er kveðið á um að það séu ákveðnir möguleikar að flytja það starfsfólk sem núna er í utanríkisráðuneytinu, sem fer með verkefnin sem verða hjá hinni nýju stofnun, yfir til stofnunarinnar. En það er líka tekið á því, af því að minnst var á aðra ríkisstarfsmenn, í 3. mgr. þessarar lagagreinar. Ég lít svo á að þar komi skýrt fram að utanríkisráðherra verði heimilt að ákveða að 1. og 2. mgr. taki til ákveðinna ríkisstarfsmanna sem hafa sérfræðiþekkingu sem talin er nýtast. Þannig geti greinin átt við um starfsmenn sem eru annars staðar enda segir að skilyrði sé að vinnuveitandi viðkomandi ríkisstarfsmanns veiti samþykki sitt. Ég held að það útskýri alveg að þar er ekki bara átt við þá sem eru í utanríkisráðuneytinu. En hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir gerði einmitt athugasemd við þetta.

Ég vil aðeins segja, af því það kom fram hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og eins hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Jóni Bjarnasyni að þeir væru ekki sammála þeirri stefnu sem fylgt væri í varnar- og öryggismálum sem felst í aðild að NATO, þótt það hafi komið fram, m.a. hjá Árna Þór Sigurðssyni, að hann teldi að þetta væri skynsamleg skipun verkefna, að ég virði þau sjónarmið að Ísland eigi ekki að vera aðili að varnarbandalagi, að hér eigi ekki að fara fram heræfingar o.s.frv. Það finnst mér bara önnur umræða. Það er stefnumótandi umræða í utanríkismálum en hér er verið að setja rammann um þær skuldbindingar sem við höfum þegar gert og hefur ekki verið breytt. Það er eins og ég segi önnur umræða. Hér eru þau verkefni sem við erum skuldbundin til að sinna samkvæmt þjóðréttarsamningum og lögum sett í ákveðinn farveg.

Varðandi tollfríðindin og skattfríðindin þá hafa komið fram ýmis sjónarmið, m.a. hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Sigurði Kára Kristjánssyni og Pétri Blöndal. Það er kannski lagatæknilegs eðlis, þ.e. hvort kveða eigi um á þau í þessu frumvarpi, vegna þess að um þau er fjallað í öðrum lögum. Ég tel eðlilegt að utanríkismálanefnd skoði það og fari yfir það. En það var talin ástæða til að árétta þetta til að vekja ákveðna vitund um þessa hluti í stjórnkerfi okkar, sem væru þá í þeim lögum sem um þessa starfsemi gilda þótt það sé kannski að finna í öðrum lögum.

En ég get tekið undir það sjónarmið að þessi fríðindi, tollfríðindi, skattfríðindi, diplómatísku fríðindin, sem við verðum að viðhalda hvort sem okkur líkar betur eða verr vegna þess að það er líka þjóðréttarskuldbinding, sé kannski, hvað eigum við að segja, barn síns tíma og ástæða til að skoða frekar hvort slíkt eigi ekki að hverfa í þessum hnattvædda heimi okkar þar sem fólk er alltaf á fleygiferð. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið.

Varðandi tekjuheimildir af NATO-eignum og einnig var spurt hvort stofnunin ætti ekki að eiga neinar eignir, um það spurði hv. þm. Jón Bjarnason. Varnarmálastofnun er umsýslustofnun með eignir NATO. Hún á ekki að eiga neinar slíkar eignir. Hún á bara að sjá um umsýslu með eignum sem NATO á en það kann að vera að hún eigi möguleika á að skapa sér tekjur af þeim eignum, t.d. með útleigu ef einhver not kunna að vera fyrir skýli eða hús þarna tímabundið eða varanlega. En það er ekki meiningin að fara í samkeppni við aðra aðila í þessum efnum.

Hér kom upp áhugaverð umræða um kjarnorkuvopnalaus svæði og hvort heimilt væri að geyma kjarnorkuvopn á öryggissvæðinu í Keflavík. Hv. þm. Jón Bjarnason vildi afdráttarlaus svör um hvort í þessu frumvarpi fælust vilyrði fyrir að geyma kjarnorku- eða gereyðingarvopn í Keflavík. Ég svara því til að að sjálfsögðu er ekkert slíkt vilyrði í þessu frumvarpi og alveg fráleitt. Ég hef litið svo á, ágætu þingmenn, að sú stefna hafi verið mótuð á Alþingi Íslendinga árið 1984 að á Íslandi væru ekki geymd kjarnorkuvopn og ætti ekki að geyma kjarnorkuvopn. Ég hef litið svo á að við ættum að ganga út frá þeirri stefnu. Hér var gefin út mjög merk yfirlýsing 6. desember 1984, af þáverandi utanríkisráðherra Geir Hallgrímssyni, sem sagði í umræðum á Alþingi, með leyfi forseta:

„Það er öllum ljóst að Íslendingar og íslensk stjórnvöld hafa lýst því margsinnis yfir að hér væru ekki geymd kjarnorkuvopn og hér ætti ekki að geyma kjarnorkuvopn. Í þeim efnum er því út af fyrir sig ekki frekari aðgerða þörf.“

Þetta var yfirlýsing sem þáverandi utanríkisráðherra gaf. Ég lít svo á að hún standi meðan henni hefur ekki verið hnekkt. Ég minni á að þessi yfirlýsing þótti sæta heilmiklum tíðindum. Ýmsir héldu því fram að fyrir þann tíma hefðu Bandaríkjamenn hugsanlega komið til landsins með kjarnorkuvopn þótt þeir hefðu aldrei viðurkennt það en heldur ekki neitað því. Þeir voru einfaldlega með þá stefnu og eru með þá stefnu að viðurkenna hvorki né neita slíku. En þarna var algjörlega skýrt dregin lína í sandinn með yfirlýsingu þáverandi utanríkisráðherra. Ég lít svo á að hún standi enn og að eftir henni sé farið.

Virðulegur forseti. Ég hef sjálfsagt ekki svarað öllum þeim spurningum sem beint hefur verið til mín í þessari umræðu. En það gefst kostur á því að ræða þessi mál betur í nefndinni og eins við 2. og 3. umr. um málið. En ég þakka enn og aftur fyrir málefnalega og góða umræðu um þetta frumvarp.