135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[16:12]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Bandaríkin hafa verið fyrirmynd vestræns lýðræðis og horft hefur verið til þeirra sem leiðandi í mannréttindum, lýðræði og frelsi einstaklingsins. Þess vegna er sérstaklega sárt að horfa upp á þá ótrúlegu tilraun þeirra í Guantanamo að kanna hversu langt hægt sé að ganga í að brjóta og fótumtroða mannréttindi. Þar er fólki haldið árum saman án þess að koma fyrir dómara, án þess að njóta lágmarksmannréttinda. Bandaríkin hafa löngum verið brjóstvörn fyrir baráttu fyrir mannréttindum í heiminum. Nú hafa þau brugðist sem slík brjóstvörn og gunnfáni þeirra í baráttu fyrir mannréttindum er troðinn í svaðið. Ég skora á Bandaríkin að loka þessum búðum og má þennan blett af sögu sinni.