135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[16:21]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir með þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðum til þessa. Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi samþykki þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu um að fordæma mannréttindabrot sem bandarísk stjórnvöld standa fyrir og bera ábyrgð á í herstöðinni sinni og fangabúðunum við Guantanamo-flóa á Kúbu.

Það er einu sinni þannig að reglur um stríð og stríðsrekstur, með hvaða hætti og hvernig skuli heyja stríð, með hvaða hætti megi ekki gera það og hvernig farið skuli með stríðsfanga, byrjuðu að þróast á 18. öld. Lengi vel var það þannig í Evrópu að stríð á milli ríkja hafði takmörkuð áhrif á almenna borgara vegna þess að það var viðurkennd regla í meira en 100 ár að um væri að ræða stríð á milli herja, það ætti ekki að bitna á almennum borgurum eða almennri starfsemi þeirra. Það ætti alls ekki að beita þá pyndingum eða valda þeim vandamálum. Þessar reglur voru hafðar í heiðri allt fram á 20. öld en þá fóru hlutirnir heldur betur að breytast. Í síðari heimsstyrjöld var það samt sem áður þannig að í mjög mörgum tilvikum voru almennar reglur um stríðsfanga haldnar og þó að ýmsar undantekningar séu á því hjá mörgum þjóðum þá vildu stríðsþjóðir í síðari heimsstyrjöldinni yfirleitt halda þær reglur sem mótaðar höfðu verið af alþjóðasamfélaginu um vernd stríðsfanga.

Það var þannig þegar Churchill og Roosevelt hittust árið 1942, minnir mig, til að fjalla um með hvaða hætti ætti að koma fyrir skipan mála og treysta mannréttindi. Eitt af því sem þeir ræddu var að stofnað yrði samfélag þjóðanna sem síðar varð Sameinuðu þjóðirnar. Þeir vildu að byggt væri upp regluverk sem tryggði mönnum jafnt í friði sem ófriði ákveðin lágmarksmannréttindi. Öll þau atriði sem þar var talað um og öll þau atriði sem sett hafa verið af alþjóðasamfélaginu til verndar föngum til að gætt sé mannréttinda þeirra sem verða undir í slíkum átökum hafa verið brotin af Bandaríkjamönnum á síðustu árum, því miður. Ég get tekið undir með hv. þm. Pétri Blöndal að mörgu leyti þegar hann talar um Bandaríkin sem leiðandi í vestrænu lýðræði. Ég tel að í sjálfu sér hafi aðrar þjóðir verið meira leiðandi í lýðræðinu en þau eru hins vegar tvímælalaust stærsta lýðræðisþjóðin og hafa verið það lengst af. Það er dapurlegt að horfa upp á að stjórn skuli vera við völd í landinu sem leyfir sér að þverbrjóta þær reglur sem alþjóðasamfélagið hefur sett, en ekki bara það, hún leyfir sér að brjóta þær reglur sem gilda í bandarísku samfélagi, þær reglur sem hver einasti siðaður maður hlýtur að vilja hafa í heiðri. Það er það sem er að gerast í Guantanamo á Kúbu. Ekki er hægt annað fyrir alla frjálsborna menn sem unna mannréttindum, sem hugsa um virðingu einstaklinganna, en að fordæma þessa gjörð. Til þess að geta haldið hlutunum með þeim hætti sem þeir gera hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna, Bush-stjórnin, komið því þannig fyrir að fangarnir í Guantanamo eru utan laga og réttar, líka bandarísks réttar. Það er erfitt fyrir bandaríska dómstóla, jafnvel hæstarétt Bandaríkjanna, að koma að því sem þarna á sér stað. Þar sem hæstiréttur hefur þó komist að þessum málum í Bandaríkjunum hefur verið öldungis ljóst að þeirra mati að um er að ræða brot sem ekki eru afsakanleg.

Ég lít þannig á að í þessu tilviki horfum við á ríkisstjórn, sem á sem betur fer stutta lífdaga eftir, sem hefur leyft sér að taka völdin í sínar hendur andstætt öllum reglum alþjóðasamfélagsins og andstætt öllum viðhorfum frjálsborinna manna til almennra mannréttinda. Það er ekki hægt annað en fordæma slíka hluti. Það er gersamlega útilokað annað en fordæma slíka hluti. Ég gæti, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði áðan, komið með tilvitnanir, blaðaúrklippur og ýmislegt fleira um þau atriði þar sem um er að ræða mjög svívirðileg mannréttindabrot gagnvart föngunum í Guantanamo-búðunum. Það er hins vegar óþarfi að tíunda það hér og í sjálfu sér þarf ekki að fara mörgum orðum frekar um þá sjálfsögðu og eðlilegu tillögu sem hér er flutt fram af hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og fleirum. Mér fyndist sómi fyrir Alþingi að reyna að hraða meðferðinni og sýna fram á að við sem bandalagsþjóð Bandaríkjanna, við sem vinir Bandaríkjanna, við sem viljum standa með Bandaríkjunum í ýmsum málum og höfum gert í gegnum tíðina, getum ekki liðið að þessi vinaþjóð okkar fari á svig við reglur alþjóðasamfélagsins hvað varðar meðferð á stríðsföngum. Þess vegna tek ég heils hugar undir þá tillögu til þingsályktunar sem hér er um að ræða og hvet til þess að Alþingi afgreiði hana sem allra fyrst.