135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[16:33]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hefur átt sér stað í dag og þeirri tillögu sem hér hefur verið lögð fram. Það er vissulega hörmulegt og þyngra en tárum taki að Bandaríkin, sem hafa um áratuga- og aldaskeið verið forustuþjóð í borgaralegum réttindum og eiga glæsta sögu að baki í því að brjóta almennum lýðréttindum braut og tryggja öflugt dómstólaeftirlit með framkvæmdarvaldinu, skuli hafa komið sér í þær ógöngur sem raun ber vitni með starfrækslu þessara ólögmætu búða í Guantanamo og misbeitingu valds sem þar fer fram. Það er líka ömurlegt að sjá að annarleg sjónarmið við skipanir á dómurum í hæstarétt Bandaríkjanna skuli hafa orðið til þess að draga svo tennurnar úr þeirri ágætu stofnun að hún skuli vera orðin þess ófær að hafa stjórn á framkvæmdarvaldinu hvað þetta varðar.

Saga Bandaríkjanna sem lýðræðisríkis er glæsileg og þrátt fyrir að þeir hafi auðvitað á köflum eins og stórvelda er háttur komið sér í misjafnt kompaní er hægt að tala um stórvirkin sem unnin hafa verið undir forustu Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi á síðustu áratugum. Þá er sérstaklega vert að hafa í huga forgönguna um stofnun Atlantshafsbandalagsins, og endurreisn Þýskalands og Japans sem lýðræðisríkja sem minnisvarða. Það var á þessum forsendum sem farsælt samstarf tókst milli Íslands og Bandaríkjanna sem byggði á þessum lýðræðislegu hornsteinum sem eiga að vera grunnur undir allri utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Það er ömurlegt að sjá hvernig Bush-stjórnin hefur snúið baki við þessari löngu hefð Bandaríkjanna og við verðum að vona að sem fyrst verði breyting þar á og að ný stjórnvöld í Bandaríkjunum marki nýja stefnu.

Ég fagna þessari tillögu, það eru margir þingmenn sem hafa tekið undir áskorun Amnesty International, mættu samt vera fleiri. Ég held að í framhaldinu sé einboðið að við ræðum þessa tillögu í utanríkismálanefnd, leitum víðtæks samráðs um endanlegt orðalag hennar og frágang tillögu af þessum toga þannig að allir flokkar geti verið með. Ég held að það væri mjög verðugt verkefni fyrir okkur að reyna að stuðla að því að við næðum samstöðu um ályktun Alþingis í þessa veru fyrir vorið.