135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[16:36]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu sinni áðan talaði hv. þm. Árni Páll Árnason um annarleg sjónarmið sem hefðu ráðið við skipun hæstaréttardómara í Bandaríkjunum. Ég átta mig ekki alveg á hvað þar er átt við vegna þess að þar er gerð ákveðin tilnefning sem meiri hluti Bandaríkjaþings verður að samþykkja. Ég minnist bara eins tilviks þar sem tilnefningu hæstaréttardómara var neitað á grundvelli pólitískra sjónarmiða. Mig minnir að hann hafi heitið Robert Bork og honum var hafnað af þinginu á þeim grundvelli að hann væri of hægri sinnaður.

Ég tel að skipan hæstaréttardómara í Bandaríkjunum sé vönduð og mun vandaðri en í ýmsum öðrum ríkjum. Mættu sum ríki, þar á meðal Ísland, taka það fyrirkomulag til fyrirmyndar þannig að í sjálfu sér verður varla sagt að annarleg sjónarmið hafi ráðið við skipun hæstaréttardómara þó að það liggi fyrir að sá stjórnmálamaður, þ.e. forsetinn sem hefur tilnefningarvaldið, geri venjulegast tillögu um þá sem honum eru þóknanlegir. Það skal tekið fram. Þrátt fyrir að þannig hafi það verið í gegnum tíðina hefur einmitt hæstiréttur Bandaríkjanna samt sem áður kveðið upp úrskurði um það atriði þar sem hægt hefur verið að koma við atriðum varðandi Guantanamo-búðirnar og tekið undir með öðrum í alþjóðasamfélaginu um að þarna væri ekki farið rétt að.

Það er eitt atriði sem við verðum líka að hafa í huga: Hvers konar fólk eru þeir fangar sem eru í Guantanamo-búðunum? Að meginhluta til eru þetta unglingar og börn. Ég held að trúarbrögðin skipti engu máli. (Forseti hringir.) Það sem skiptir máli er að það er ekki hægt að sætta sig við þetta.