135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[16:41]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst við að vísu komin út í dálítil aukaatriði, að vera að ræða mikið um hæstarétt Bandaríkjanna í þessu sambandi. Þarna var um að ræða úthugsaða leið hjá Bush-stjórninni með því að setja upp fangabúðir utan lögsögu Bandaríkjanna í Guantanamo sem gerði það að verkum að hæstiréttur Bandaríkjanna hefur ekki talið sér heimilt að fara fram með þeim hætti sem hann annars hefði farið fram með ef um hefði verið að ræða fanga á bandarísku landi.

Í annan stað hafa skilgreiningarnar verið mjög sérstakar þar sem Bandaríkin hafa skilgreint þá fanga sem þarna eru sem hryðjuverkamenn en ekki stríðsfanga. Á þeirri skilgreiningu er hangið gagnvart alþjóðasamfélaginu. Í mínum huga skiptir hins vegar ekki máli hvort menn kallast hryðjuverkamenn eða stríðsfangar. Þeir sem hafa farið gegn einum her og eru teknir til fanga af honum eru óhjákvæmilega stríðsfangar. Þeir sem berjast í skipulögðum her, eins og um var að ræða með flesta fangana sem voru teknir og settir í Guantanamo, a.m.k. til að byrja með, gátu aldrei verið skilgreindir annað en stríðsfangar.

Það er fyrst og fremst á grundvelli hárfínna útúrsnúinna lagatúlkana sem Bush-stjórninni hefur enn tekist að hanga með þessar svívirðilegu búðir, og það er fyrst og fremst þeirri ríkisstjórn til skammar. Ég hygg að það sé gríðarlegur fjöldi menntaðra manna sem ómenntaðra í Bandaríkjunum sem fordæma með sama hætti og við með hvaða hætti bandaríska stjórnin fer fram.