135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[16:52]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Karli V. Matthíassyni fyrir góða ræðu um þetta. Ég get í öllum meginatriðum lýst mig sammála því sem hann sagði eins og öðrum sem um þetta hafa talað. Ég hygg að mikil eindrægni ríki í þingsalnum.

Ég vil þó gera athugasemd við tvennt í máli hv. þingmanns. Þó að ég sé honum sammála um það að mörgu sé ábótavant hér á landi, t.d. í fangelsismálum, velti ég fyrir mér hvort smekklegt sé að ræða þær athugasemdir í sama samhengi því að þar skilur himinn og haf á milli. Við getum ekki líkt þeim hörmungum sem eiga sér stað í Guantanamo við þá lítils háttar hnökra sem eru t.d. á málefnum á Skólavörðustíg. Við getum aftur á móti ekki skorast undan ábyrgð á því sem er að gerast í Guantanamo. Eins og ég kom að hér áðan skiptir máli hvaða afstöðu við tókum við upphaflegan feril þessa máls. Þar tókst mjög óhönduglega til og hefur nú oft verið rætt um í þessum sal og ég býst við að mikill meiri hluti þingmanna sé mér sammála í þeim efnum.

Varðandi það atriði, sem vissulega er rétt, að við erum hér fá og smá og við erum m.a.s. fá hér í þingsalnum núna (Gripið fram í.) — en við erum reyndar ekkert mjög smá sem hér erum, sérstaklega ekki hv. þm. Jón Magnússon sem hér talaði áðan. En smæð þjóðarinnar er ekki aðalatriðið í þessu máli. Ég held að vægi okkar Íslendinga á alþjóðavettvangi einmitt í málefnum sem snerta Bandaríkin sé mikið. Vægi okkar varðandi innrás Bandaríkjanna inn í Írak var gríðarlega mikið, og skal ekki vanmetið, og vægi okkar við að gagnrýna þessa vinaþjóð í vestri er líka gríðarlega mikið. Ég á svo sem von á að um þetta séum við hv. þingmaður ekkert mjög ósammála.