135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[16:54]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég reiknaði ekki með því að fara í andsvar út af þessu enda var hv. þm. Bjarni Harðarson nokkuð sammála málflutningi mínum og við höfum verið sammála í þessari umræðu. Ég ætla svo sem ekkert að tjá mig frekar um hnökrana, eins og hv. þingmaður talaði um, á Skólavörðustíg 9, og það átti svo sem heldur ekkert að vera aðalatriðið. Mestur þungi ræðu minnar fór í að tala um fangabúðirnar í Guantanamo sem við erum að fordæma. Ég vil alls ekki að orð mín skiljist sem svo að ég telji að samasemmerki sé á milli þess glæpsamlega athæfis sem á sér stað þar og fangelsis á Íslandi. Ég var aðeins að vekja athygli á því, eða taka það inn í þessa umræðu, að við þurfum að vera vakandi fyrir okkur sjálfum, og sú ályktun sem hér er lögð fram gefur okkur tilefni til þess.

Hún gefur okkur líka tilefni til þess að vera þakklát (JM: Já, en Guantanamo er án dóms og laga.) fyrir það í hvers konar landi við búum, fyrir það að við búum í réttarríki. Mér þykir leitt, það liggur við að ég sjái eftir því að hafa nefnt þetta, ef þetta hefur vakið þennan misskilning, en það er alls ekki svo að ég sé að setja samasemmerki þarna á milli, langt í frá. Ég vil aðeins vekja athygli á því að tillagan gefur okkur tilefni til að lýsa yfir ánægju og gleði yfir því að himinn og haf skilur á milli íslenskra fangelsa og fangelsisins í Guantanamo og (Forseti hringir.) aðferðanna sem menn nota við að dæma fólk þangað inn.