135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

skyldunámsefni fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum.

276. mál
[17:45]
Hlusta

Flm. (Karl V. Matthíasson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þá lít ég á þetta sem jákvætt andsvar. Ég þakka þingmanninum fyrir þessi orð og brýningar, það er alltaf tilefni til þess að við íhugum mannréttindi. Hvert sem við lítum í veröldinni og í nánast öllum fréttatímum á öldum ljósvakans og í blöðunum er verið að segja frá mannréttindabrotum og ekki síst gegn konum. Eitt af því sem veldur því að svo oft er brotið gegn konum er að slíkt er jafnvel inngróið í menningu og hugarfar og meira að segja í landi eins og okkar, lýðræðisríki. Það þarf að hafa áhrif á hugarfar ungra karla og unglinga almennt — auðvitað kvenna líka en sérstaklega karla að mínu viti.

Til þess að móta hugann, breyta viðhorfum, skapa nýja hugsun og nýja sýn er nauðsynlegt að kynna hver staðan er og hafa námsefnið þannig upp byggt að það höfði til þeirra sem eru að læra. Í því sambandi má líka setja fram spurningar sem snerta daglegt líf nemenda: Við hvaða aðstæður á systir þín að búa? Við hvaða aðstæður býr móðir þín? Við hvaða aðstæður eiga dætur þínar að búa? o.s.frv. Slíkt er til þess fallið að vekja menn frekar til umhugsunar og velta fyrir sér í alvöru hvað hægt er að gera til að jafna þá mismunun sem er á milli kynjanna í dag.