135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

skyldunámsefni fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum.

276. mál
[17:53]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við tökum fyrir í röð fimm mál frá Vestnorræna ráðinu, tillögur sem hafa verið samþykktar á þingum ráðsins. Það er afar brýnt að þær tillögur hljóti jákvæðar viðtökur í þinginu, fái góða umfjöllun í nefnd, komi til afgreiðslu og fái síðan fjármagn þannig að hægt sé að fylgja þeim eftir. Það er það sem skiptir máli þannig að þetta verði allt að raunveruleika. Hér eru tillögur um menntun, lýðháskólahugmynd, jafnrétti og mannréttindi, einkum út frá stöðu kvenna á þessu svæði, öryggismál, nýtingu sjávar og rannsóknir.

Sú tillaga sem hér er til umfjöllunar nú varðar námsefni fyrir unglinga um stöðu kvenna á þessu svæði. Hugmyndin er sú að tengja það frekari jafnréttis- og mannréttindaumræðu og umræðu um stöðu kvenna almennt í heiminum. Ég held að það sé afar vel til fundið að taka þetta efni upp og nálgast það út frá okkar heimaslóðum, hvort sem það er Ísland, Grænland eða Færeyjar. Við ættum þá ekki aðeins að skoða vandamálin í hverju landi fyrir sig, það ójafnrétti sem við sjáum víða og þá meðferð sem konur hafa þurft að sæta í öllum þessum löndum, við ættum ekki síður að draga fram hversu sterkar konur þessara landa hafa verið og hversu mikilvægu hlutverki þær hafa gegnt og gegna enn í atvinnulífi, heimilisrekstri og í samfélaginu öllu. Ég held að það sé kannski mikilvægast að draga fram jákvæðu atriðin, leiða saman þá þekkingu sem við höfum og veita upplýsingar þannig að ungt fólk þekki vel stöðu jafnaldra sinna og ungs fólks í öðrum löndum, kynnist innbyrðis, fái jafnvel tækifæri til að heimsækja hvert annað. Slík kynning, aukin þekking á stöðu hver annars, sögu og menningu, hindrar fordóma, ranghugmyndir og staðalhugmyndir sem oft eru í gangi varðandi hin löndin.

Sjálfur hef ég átt þess kost að taka þátt í samstarfi milli þessara landa, milli Færeyja og Íslands, tekið þátt í að koma á fót samkeppni í tengslum við FITUR sem þá var í gangi sem var samstarfsnefnd á milli þessara tveggja landa. Ég hef einnig átt skólasamskipti við nemendur frá Qaqortoq og því er ekki að leyna að þegar slík samskipti hafa átt sér stað höfum við oft orðið að glíma við það í byrjun að unglingar hafa fyrir fram mótaðar hugmyndir um að það sé kannski ekki eins merkilegt að heimsækja þessi litlu lönd, sem þeim finnst Færeyjar og Grænland vera miðað við Ísland, eins hlálegt og það nú er, eins og að fara til Evrópu eða stærri landa.

Það viðhorf hefur undantekningarlaust breyst þegar krakkarnir hafa komið í heimsókn eða hist og átt samverustundir saman. Ég held því að umfjöllun innan skólakerfisins, líkt og hér er gerð tillaga um, sé afar mikilvæg. Það er mikilvægt að við reynum að koma á sterkari samskiptum milli þessara þjóða með einhvers konar nemendaskiptum því að það er besta leiðin til að tryggja þekkingu á mannlífi í löndunum.

Ég ítreka að þetta er mál sem snýr að því að kynna sér stöðu kvenna, ekki síst út frá jákvæðum hliðum frekar en að draga fram ýmsa ólíka siði og sögulega hluti sem eru að baki. Við eigum að horfa til nútíðar og til þess með hvaða hætti fólk býr í landinu í dag. Að því leyti getur þessi tillaga, jafnt sem hugmyndin um lýðháskóla, stuðlað að mjög mikilvægum samskiptum þessara þjóða. Ég fagna þessum tillögum, vona að þær fái góðar viðtökur í þinginu og góða afgreiðslu og fjárveitingu í framhaldi svo að hægt sé að hrinda þeim í framkvæmd.