135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[18:03]
Hlusta

Flm. (Karl V. Matthíasson) (Sf):

Herra forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar er flutt af okkur sem eigum sæti í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins sem ásamt mér eru hv. þingmenn Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson, Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson og Jón Gunnarsson.

Tillagan er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins sem samþykkt var á ársfundi þess í sumar og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Vestnorræna ráðið skorar á landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands að koma á reglubundinni samvinnu um stofnstærðarrannsóknir helstu nytjastofna sjávar innan lögsögu landanna, einkum þeirra sem eru sameiginlegir, og frekari samræmingu rannsóknaraðferða til að auðvelda raunhæfan samanburð milli landanna. Jafnframt er skorað á stjórnvöld landanna að láta rannsaka betur orsakasambandið milli stofnstærða annars vegar og umhverfisþátta, afráns og veiða hins vegar og að koma á skilvirkari upplýsingagjöf milli landanna um útbreiðslu fiskstofna og sjávarspendýra.“

Ísland, Færeyjar og Grænland eiga vegna legu sinnar við Norður-Atlantshaf sameiginlegra hagsmuna að gæta þegar kemur að verndun sjávarlífríkisins og auðlindanýtingu, ekki síst þeirra fisktegunda sem eru sameiginlegir í lögsögum landanna, þ.e. þorskur, grálúða og karfi. Sjálfbærar veiðar eru hagsmunamál allra landanna sem reynt er að tryggja með því að láta vísindalegt mat á stofnstærð liggja til grundvallar ákvörðunar stjórnvalda um árlegan heildarafla hvort sem um kvóta eða sóknardagakerfi er að ræða. Nýverið hafa niðurstöður mælingar hafrannsóknastofnana landanna gefið til kynna að ástand þorskstofnsins innan lögsögu hvers lands fyrir sig sé misjafnt. Mat á stærð þorskstofnsins innan lögsögu Íslands og Færeyja sýnir að hann fer minnkandi á meðan þorskstofninn undan austurströnd Grænlands fer stækkandi. Í þeim tilvikum hins vegar þar sem veiðarfæri hafa eingöngu verið notuð til þorskveiða en ekki til veiða á öðrum fisktegundum hefur það sýnt sig að afli á sóknareiningu hérlendis hefur verið mikill andstætt niðurstöðum ofangreindra mælinga, eins og við sáum t.d. á vertíðinni í fyrra.

Ósamræmi þetta vekur upp spurningar um hversu marktækur munur á stærð þorskstofnsins milli landanna sé, sem aftur á móti sýnir mikilvægi þess að samræma aðferðir við mat á stofnstærð enn frekar, ekki síst á sviði gagnaöflunar. Í ljósi þessa samþykkti Vestnorræna ráðið samhljóða ályktun þess efnis að vinna bæri að frekari samræmingu aðferða við mat á stofnstærð til að geta lagt samanburðarhæft mat á stærð fiskstofnanna innan lögsögu hvers lands fyrir sig.

Jafnframt skorar Vestnorræna ráðið á stjórnvöld landanna að koma upp reglubundnari samvinnu um rannsóknir. Nú þegar er samstarf milli hafrannsóknastofnana landanna fyrir hendi, sem dæmi má nefna samstarf Íslendinga og Grænlendinga haustið 2006 um rannsóknir á grálúðu og karfa. Sú samvinna fól m.a. í sér stöðlun veiðarfæra til að geta reiknað út veiðihlutfall mismunandi veiðarfæra, sem er ein meginforsenda raunhæfs samanburðar á rannsóknarniðurstöðum. Hins vegar er samstarf af þessu tagi ekki reglubundið heldur meira háð frumkvæði einstaklinga og tímabundnum styrkveitingum.

Þess vegna skorar Vestnorræna ráðið á stjórnvöld að koma á reglubundinni samvinnu um stofnstærðarrannsóknir sem m.a. felur í sér að samræma aðferðir við gagnaöflun og samtímis að eiga nána samvinnu um að kanna samspilið á milli stofnstærða annars vegar og umhverfisþátta eins og hitastigs sjávar, stefnu og/eða breytinga á flæði hafstrauma, þar með talið djúpsjávarstrauma, auk fæðuframboðs, afráns og veiða hins vegar til að rannsaka hvað ræður mestu um breytingar á hreyfingum og stærð nytjastofna.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að þetta mál gangi til utanríkismálanefndar.

Ég vil nota tækifærið til að þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt og lagt til málanna ýmislegt varðandi tillögur Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sem hér hafa verið bornar upp.

Mig langar að geta þess að Vestnorræna ráðið kemur saman til reglubundinna funda, ef svo má að orði komast, tvisvar á ári, annars vegar aðalfundarins þar sem þingmenn þessara þriggja landa, sex þingmenn frá hverju landi, átján þingmenn alls, koma saman og bera saman bækur sínar, leggja fram tillögur um ýmis mál sem þeim brennur á hjarta og geta stuðlað að bættum hag byggða og lands. Síðan er hátturinn sá að þessar tillögur eru lagðar fyrir Alþingi og þjóðþing hinna landanna og þannig er reynt að vinna þeim brautargengi.

Ein tillaga var samþykkt ekki fyrir löngu síðan, fyrir fáeinum árum. Hún fjallaði um samstarf skóla og sjáum við ávöxt þess í því að skólinn á Hólum í Hjaltadal hefur tekið upp kennslu í ferðamálafræðum fyrir fólk á Grænlandi. Það er mjög ánægjulegt. Eins væri mjög ánægjulegt og gleðilegt ef þessi tillaga um sameiginlegar rannsóknir yrði samþykkt. Mikil umræða hefur verið um rannsóknir á fiskstofnum undanfarin ár, ekki síst á þessu ári og hinu síðasta vegna hins mikla niðurskurðar sem átt hefur sér stað í sambandi við þorskstofninn og þá hefur vaknað upp sú spurning: Hvað vitum við um fiskstofnana? Auðvitað er búið að afla mikilla upplýsinga og safna gögnum en hafið er þannig að við sjáum ekki allt sem þar gerist og því er mikil þörf á að auka og efla rannsóknir — eins og tekið hefur verið undir af hæstv. ríkisstjórn — til þess að við vitum hvað er að gerast og getum betur lagt mat á hvað æskilegt er að veiða og hvað réttast er að gera í sambandi við veiðiaðferðir.

Herra forseti. Að lokum þakka ég fyrir umræðu um allar þessar tillögur og jákvæð innlegg og vona að þær fái jafngóðar undirtektir í utanríkismálanefnd og á vettvangi þingsins.