135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[18:11]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft afar stóru máli. Mikil nauðsyn er á að það náist að auka samstarf við rannsóknir almennt og gera samanburð á því hvernig við stundum rannsóknir og hvaða aðferðir við notum við mælingar á nytjastofnum okkar, því að auðvitað er mikill samgangur milli nytjastofna í hafinu, annars vegar á Íslands- og Grænlandsmiðum og hins vegar Íslands- og Færeyjamiðum.

Þó að þetta séu ekki í öllum tilfellum nákvæmlega sömu tegundir liggja lögsögur þessara landa saman og það er mikil hreyfing á fiskstofnunum milli lögsaganna, mun meiri hygg ég en menn hafa kannski viljað viðurkenna til þessa. Með hlýnandi sjó og breyttu straumakerfi má jafnvel búast við að þessi samblöndun stofnanna og tilfærsla á miðunum við landið yfir til annarra hafsvæða, eins og yfir til Austur-Grænlands, verði mun meiri á komandi árum ef svo heldur áfram sem horfir að hlýsjórinn verði viðvarandi um einhverra ára skeið eða jafnvel áratugaskeið. Þá gætum við upplifað svipað ástand og var á Íslandsmiðum á árum áður þegar nánast megnið af þorskaflanum við landið var tekið á svokölluðum vertíðartímabilum þegar þorskurinn gekk til hrygningar við landið en sannað þótti að stór hluti hans kæmi frá Grænlandi, bæði Vestur-Grænlandi og Austur-Grænlandi, yfir á Íslandsmið.

Við megum svo ekki gleyma því að undirstaða þess að fiskstofnar við Ísland þrífist vel byggist að stórum hluta á því að ákveðinn stofn af litlum silfruðum fiski, loðnunni, viðhaldist og þroskist í hafinu norður af Íslandi og þar erum við með sameiginlegan stofn með Grænlendingum sérstaklega þar sem uppeldisslóðir og fæðuslóðir þessara stofna eru sameiginlegar og veiðisvæði hafa oft verið sameiginleg líka. Þessi litli fiskur syndir hingað og ber með sér inn á Íslandsmið alla þá orku sem fiskstofnar okkar þurfa á að halda sér til viðhalds og til að gefa af sér veiði við strendur landsins.

Að mörgu er því að hyggja, hæstv. forseti, og það hefur sýnt sig á undanförnum árum að þorskur er að fara í auknum mæli yfir til Austur-Grænlands. Ég hygg að það hafi byrjað í verulegu magni í kringum árið 2002 þegar hér voru ríkjandi suðaustanáttir nánast allt haustið og hitaskilin færðust langt til norðvesturs. Þorskurinn fór þá að talsverðu leyti yfir á Austur-Grænlandsmið eins og veiðar við Austur-Grænland sýndu þá og kom mörgum í opna skjöldu að þar skyldi allt í einu fara að veiðast þorskur. Þetta er raunar í samræmi við það sem menn hafa kallað fiskifræði sjómannsins, þ.e. þekkingu sjómanna á því sem lengi hefur búið með fiskimönnunum að vindar og veðurfar hafa veruleg áhrif á strauma, þyngd þeirra og kraft og hvernig straumstefnur breytast. Þetta hefur fiskimönnum lengi verið ljóst og þeir hafa hagað fiskveiðum sínum í samræmi við það, sérstaklega í sundinu milli Íslands og Grænlands sem er á mótum hins kalda og hlýja sjávar, þar sem norðrið og suðrið mætast í raun og veru, og þær færast til og sveiflast með ótrúlegum hraða við vissar aðstæður.

Það var því svolítið merkilegt sem ég las í blaði nýverið að einhverjir miklir veðurfræðingar og haffræðingar úti í heimi sendu frá sér þá niðurstöðu að þeir teldu að vindafar hefði miklu meiri áhrif á hafstraumana en menn hefðu talið hingað til. Það er akkúrat það sem fiskimenn hafa haldið fram árum saman, að vindarnir hefðu veruleg áhrif á það hvernig hafstraumarnir breyttust ef þeir væru ríkjandi um langan tíma.

Sameiginlegir fiskstofnar við Grænland til viðbótar við loðnuna sem ég nefndi áðan eru þorskur, karfi, grálúða, blálanga, keila, lúða, hlýri og jafnvel kolmunni sem gengur upp á Dohrn-banka að ógleymdum þeim sem við munum leggja okkur til munns næsta mánuðinn, þ.e. hákarl á þorranum, en hákarlinn er náttúrlega kaldsjávarfiskur og er í verulegum mæli við Grænland en einnig hér við Ísland. Með Færeyingum eigum við sameiginlega síld, ufsa, kolmunna, þorsk og marga fleiri stofna. Grálúðan er talin sameiginlegur stofn í öllu Norður-Atlantshafi þó að ég dragi það í efa, á svipaðan hátt og fiskimenn drógu það lengi í efa, sem kom í ljós síðar, að það væri bara einn þorskstofn við Ísland. Það hefur auðvitað komið í ljós sem fiskimennirnir sögðu með sína reynslu að þorskstofnar eru margir og haga sér misjafnlega við landið, bæði með hrygningartíma og staðhætti.

Það vantar geysimikið á að þessum rannsóknum sé sinnt með þeim hætti sem þarf að gera. Því miður virðist mér að fiskifræðingar, m.a. á Íslandi, hafi lengi talið þekkingu sína svo yfirgripsmikla að nánast væri hægt að treysta á hana sem mjög faglega og örugga þekkingu til að byggja veiðimunstur okkar á til margra ára. Það hefur auðvitað ekki verið reyndin, hæstv. forseti, og er auðvitað hægt að nefna nokkur einföld dæmi því til staðfestingar. Ég minnist funda vestur í Ísafjarðardjúpi þar sem hafrannsóknamenn kynntu það fyrir veiðimönnum að ef farið væri eftir tillögum um veiðar á rækju í Ísafjarðardjúpi mundi rækjan vera til staðar ár og síð og alla tíð, menn mundu byggja lífsafkomu sína á rækjunni um ókomnar aldir. Svo breyttist sjávarhitinn og ýsan og þorskurinn gengu í auknum mæli í Ísafjarðardjúp og Húnaflóa og fleiri svæði sem byggðu algjörlega á rækjuveiðum og hvað gerðist á tveimur árum? Engin rækja og menn hafa ekki byggt afkomu sína á rækju þar nú í nokkur ár.

Þetta eru hinar náttúrulegu sveiflur sem við vitum því miður allt of lítið um. Þess vegna teljum við að sú tillaga sem við leggjum hér fram, um aukna samvinnu og samanburð á aðferðum fiskifræðinga og annarra rannsóknarmanna á því hvernig lífríkið breytist í hafinu, hvernig straumar breytast og hvernig ferðalag fisksins tekur breytingum miðað við náttúrufar, sé afar nauðsynleg. Ég tel að komist tillagan til framkvæmda og menn færu að líta betur á sjónarmið hvers annars og mismunandi framsetningu mundu menn öðlast reynslu sem ég hygg að gæti orðið mjög mikilvæg í framtíðinni.

Auðvitað er það svo að rannsóknarmönnum og vísindamönnum í hverju landi þykir sinn fugl fagur og halda því fram að allt sem þeir gera sé í raun og veru best og ef við fiskimennirnir efumst um þekkingu þeirra og hæfni til að draga þær ályktanir sem þeir draga er okkur oft borið á brýn að við séum að gera lítið úr þekkingu þeirra og að vegið sé að starfsheiðri manna í þessum greinum, haffræðinni og fiskifræðinni og líffræðinni að því er lýtur að sjávardýrastofnunum.

Að þessu sögðu vil ég í lokin minna á að selur og hvalur eru hluti af öllu þessu lífríki og verður ekki frá því skilinn og menn geta ekki sagt að þær dýrategundir hafi ekki áhrif á lífríkið. Þær hafa það og við verðum að taka mið af því, annaðhvort með veiðum eða nýtingu eða að gera ráð fyrir því sem þessi dýr éta í framtíðinni og það rýrir einfaldlega lífskjör okkar.

Ég tel að þessi tillaga sé afar góður grunnur til að færa málin í annan farveg en þau hafa verið í hvað varðar hafrannsóknir og fiskrannsóknir á undanförnum árum.