135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[18:31]
Hlusta

Flm. (Karl V. Matthíasson) (Sf):

Herra forseti. Mig langar í lokin að ítreka þakkir mínar til þeirra sem tekið hafa þátt í umræðunni. Varðandi orð hv. þm. Grétars Mars Jónssonar er það svo að Norðmenn hafa áheyrnaraðild að Vestnorræna ráðinu og hafa mætt á fundi þess. Ég hef ekki fundið að þeir vilji gerast meðlimir að ráðinu en ég verð að segja að reynsla mín er sú að það hafi verið gott samstarf og þeir hafi lagt gott til málanna. Þeir hafa líka átt sinn þátt í að Vestnorræna ráðið er nú með aðgang að Norðurlandaráði sem er mjög mikilvægt fyrir okkur eins og komið hefur í ljós í sambandi við tillögur um björgunarmál. Ég þakka á ný þeim fyrir sem tóku þátt í umræðunni.

Mig langar einnig til að geta þess að tvö ágæt, Magnea Marinósdóttir sem starfar hjá alþjóðasviði Alþingis og Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, hafa líka lagt fram mikla vinnu í undirbúning funda og unnið að gerð greinargerðanna við tillögurnar. Þau hafa lagt góða vinnu í öll þessi mál. Ég nota einnig tækifærið hér til að þakka þeim fyrir.

Að svo mæltu, herra forseti, vona ég að tillögur Vestnorræna ráðsins fái jákvæða umfjöllun því að ég er sannfærður um að það mun leiða til góðs á mörgum sviðum.