135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

Vegagerðin.

[15:11]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. samgönguráðherra. Ég þarf gjarnan að hafa smáaðdraganda að máli mínu þegar ég tala við hæstv. samgönguráðherra þar sem það var þannig þegar hann var í stjórnarandstöðu að þá hafði hann mikla lausn á öllum málum, fannst mér, og t.d. hvað varðar landsbyggðina þá var það aðallega vegna þess að ríkisstjórnin sem þá sat hafði ekki alveg rétta stefnu sem ekki var alveg blússandi mannfjölgun á landsbyggðinni. Nú er hæstv. ráðherra kominn með mikil völd og hlýtur að geta beitt sér mikið í þessu máli.

Það sem ég ætla að spyrja ráðherra út í varðar Vegagerðina. Þannig er að einn hv. þingmaður, stjórnarsinni, hv. þm. Ólöf Nordal, orðaði það fyrir jólin að rétt væri að flytja höfuðstöðvar Vegagerðarinnar til Akureyrar og mælti ágætlega fyrir því. Ég reikna með að þetta sé mál sem er í vinnslu hjá ríkisstjórninni þar sem hér er um stjórnarsinna að ræða og vil því spyrja hæstv. samgönguráðherra betur út í þetta, hvort þetta sé ekki mál sem við megum eiga von á að fá frekari fregnir af alveg á næstunni. En það að hv. þm. Ólöf Nordal virðist vera þessarar skoðunar er reyndar nýr tónn frá Sjálfstæðisflokknum, því að sá flokkur hefur farið með samgöngumál í allmörg ár, í líklega 18 ár, og ekki hefur orðið neitt af því að þessi ágæta stofnun hafi verið flutt út á land. Hins vegar eru breyttir tímar núna og nú er kominn hæstv. samgönguráðherra frá Samfylkingunni sem hefur haft uppi stór orð um mikilvægi þess að fjölga störfum á landsbyggðinni. Ég hef því mikinn áhuga á að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig hann ætlar að beita sér í þessu máli.