135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

nefnd um úrræði á húsnæðismarkaðnum.

[15:24]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég get vel tekið undir þá lýsingu sem hér var dregin upp af stöðu íbúðakaupenda, þ.e. þeir sem eru ofurseldir félagslega íbúðakerfinu og fyrstu íbúðakaupenda, að hún er slæm og því hef ég lýst hér áður að það þarf með sérstökum hætti að taka á málefnum þessara hópa. Í því augnamiði var nefnd sett á laggirnar, eins og hv. þingmaður nefndi, í ágústmánuði síðastliðnum og ég ætlaði henni tiltölulega skamman tíma til að koma með tillögur sínar. Í ljós kom að það tók nefndina lengri tíma en ég ætlaði henni að skila niðurstöðum. Hún átti að skila niðurstöðum 1. nóvember en það er stutt síðan að hún skilaði mér tillögum.

Tillögur nefndarinnar ganga út á það að bæta stöðu þeirra sem geta ekki keypt sér húsnæði og þurfa að reiða sig á félagslega íbúðakerfið og eins að bæta stöðu fyrstu íbúðakaupenda. Það er alveg ljóst að í tillögum nefndarinnar er auðvitað ýmislegt sem snýr að sveitarfélögunum vegna þess að sveitarfélögin hafa auðvitað ýmsar skyldur, sérstaklega við tekjulágt fólk sem þarf á íbúðum að halda á leigumarkaðnum.

Ég taldi því affarasælast miðað við tillögur nefndarinnar sem voru lagðar fram og reyndar kom það fram hjá nefndinni að hún taldi mikilvægt að taka upp viðræður við sveitarfélögin um þann þátt sem snýr að sveitarfélögunum. Ég vænti þess að þær viðræður fari í gang á næstu dögum þannig að við munum fyrr en síðar sjá niðurstöðuna að því er varðar þann þátt sem snýr að sveitarfélögunum.

Ríkisstjórninni hafa verið kynntar tillögurnar en ríkisstjórnin, ásamt þeirri sem hér stendur, hefur ekki tekið neina afstöðu til þeirra tillagna sem hafa verið lagðar fram. Það munum við gera þegar niðurstaða nefndarinnar í samræðum við sveitarfélögin liggur fyrir og eins þurfum við alveg augljóslega taka mið af þeim markaðsaðstæðum sem nú eru uppi.