135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

nefnd um úrræði á húsnæðismarkaðnum.

[15:28]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel eðlilegt að sveitarstjórnirnar sem nú fjalla um það sem snýr að sveitarstjórnunum fái ráðrúm til þess að ræða það áður en tillögurnar verða kynntar opinberlega. Staðan er sú varðandi leigumarkaðinn og félagslega íbúðakerfið að viðskilnaður síðustu ríkisstjórnar var með þeim hætti að það þarf að taka mjög vel á þessum málum. (Gripið fram í.) Eins og ég sagði áðan þá snúa tillögurnar að verulegu leyti að sveitarfélögunum og aðkomu þeirra að framkvæmd og fjármögnun þeirra tillagna.

Ég tel rökrétt í framhaldi af starfi nefndarinnar, sem líka óskar eftir að fá að sjá hvernig fjármögnun verður háttað af hálfu sveitarfélaganna, þannig að hún mun fá málið aftur til sín, þá tel ég rétt að sá ferill gangi fyrir sig með þeim hætti sem ég hef lýst og að ríkisstjórnin sem einungis fékk þessar tillögur til skoðunar mjög nýlega, fái ráðrúm til þess að taka afstöðu til þeirra. Þegar þetta allt liggur fyrir (Forseti hringir.) og við teljum að markaðsástæður gefi tilefni til þess að koma með tillögur út á (Forseti hringir.) markaðinn þá muni þær verða kynntar opinberlega.