135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

framboð Íslands til öryggisráðsins.

[15:40]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ísland hefur tekið þátt í starfi hinna Sameinuðu þjóða í meira en 60 ár. Þátttaka okkar þar er einn af þeim hornsteinum í stefnu Íslands í utanríkis- og alþjóðamálum sem prýðileg sátt er um í samfélaginu. Um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hafa þó verið skiptar skoðanir í öllum flokkum, en að mínu mati er það rökrétt framhald af störfum okkar þar til þessa. Markmið þess leiðangurs sem framboð til öryggisráðsins er verður hins vegar að vera alveg skýrt og við að hafa burði til þess að starfa þar á eigin forsendum en ekki annarra. Þannig er brýnt að móta sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu þar sem hernaði og vígvæðingu er hafnað og við eigum að beita okkur fyrir alþjóðlegum samningum þar að lútandi. Við eigum að ganga á undan með góðu fordæmi og friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum og sýna á þann hátt í verki að við viljum beina athygli að umhverfisöryggi og vernda hafið fyrir úrgangi frá kjarnorkuverum og herstöðvum. Ísland á að styðja eindregið markmið Sameinuðu þjóðanna og ákvæði mannréttindayfirlýsingarinnar með því að leggja sitt af mörkum til að útrýma fátækt og hungri, félagslegu ranglæti, misskiptingu auðs, kynþáttamismunun, mannréttindabrotum og hernaðarhyggju. Í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna þarf að stórauka framlög til þróunaraðstoðar og mættu þau koma í stað hernaðarbrölts heima fyrir.

Meginstoðir sjálfstæðrar utanríkisstefnu eru sjálfstæði og hlutleysi Íslands, alþjóðleg umhverfisvernd, frumkvæði að og stuðningur við alla viðleitni til afvopnunar og friðsamlegrar sambúðar þjóða, samstaða með kúguðum þjóðum og þjóðarbrotum, barátta fyrir mannréttindum og alþjóðleg samvinna á grundvelli jafnréttis og gagnkvæmrar virðingar fyrir ólíkum skoðunum, menningu og trúarbrögðum.

Herra forseti. Til að Ísland geti orðið trúverðugur fulltrúi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þurfa íslensk stjórnvöld að biðjast afsökunar á stuðningnum við hina ólögmætu innrás Bandaríkjanna í Írak. Þá verðum við að lýsa yfir stuðningi við sjálfstætt og lýðræðislegt ríki Palestínu og mótmæla stöðugri hersetu Ísraelsríkis þar. Við þurfum að fordæma ólöglega og ómannúðlega meðferð á föngum í búðum Bandaríkjamanna í Guantanamo og endurskoða þátttöku okkar í hinum vanhugsaða herleiðangri NATO í Afganistan. Loks þurfum við að taka forustu í loftslags- og umhverfismálum, einu stærsta öryggisviðfangsefni alþjóðasamfélagsins á 21. öldinni, með afdráttarlausum, metnaðarfullum og undanbragðalausum markmiðum (Forseti hringir.) um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda.

Því miður eru engin teikn á lofti um að núverandi ríkisstjórn muni standa fyrir stefnubreytingu af Íslands hálfu í þessu efni og (Forseti hringir.) því er skiljanlegt að menn staldri við og spyrji um erindi Íslands í öryggisráðið.