135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

framboð Íslands til öryggisráðsins.

[15:42]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Málshefjandi spyr hvort trúverðugleiki framboðsins sé í húfi í ljósi þess að nú sé komin fram niðurstaða frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og að ekki hafi undanbragðalaust verið fallist á þau sjónarmið sem þar koma fram. Þarna þykir mér býsna langt seilst. Staðreyndin er sú að það er fullkomlega ómálefnalegt eins og hæstv. utanríkisráðherra vék að í máli sínu að tengja þessa hluti tvo saman með þeim hætti sem málshefjandi hefur kosið að gera. Framboð okkar til öryggisráðsins er miklu stærra mál en svo að það sé hægt að grafa undan trúverðugleika þess með þeirri tilraun sem hér er gerð eða þeim vangaveltum sem málshefjandi færir fyrir okkur á þinginu.

Það snýst auðvitað fyrst og fremst um það að við séum að lýsa því yfir að við séum tilbúin, við séum þjóð sem getur axlað ábyrgð af þeim toga sem seta í öryggisráðinu felur í sér, að við séum tilbúin til að rísa til helstu ábyrgðar sem hægt er að axla innan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Það er með setu í öryggisráðinu sem menn geta helst axlað einhverjar þær mestu byrðar og gegnt einhverju mikilvægasta ábyrgðarhlutverki sem á þeim vettvangi er hægt að gera. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort málshefjandi haldi því fram að með fullgildingu ákvæða mannréttindanefndarinnar og þessarar bókunar við hana hafi á Íslandi átt sér stað eitthvert framsal á fullveldinu. Heldur hv. þingmaður virkilega að við séum skuldbundin af þessari niðurstöðu?

Þetta er ekki annað en álit, sjónarmið eins og hæstv. utanríkisráðherra vék að, og það verður m.a. að skoða þetta mál í (Forseti hringir.) því ljósi að það voru fjölmargar þjóðir innan Sameinuðu þjóðanna (Forseti hringir.) sem voru hreinlega ósammála niðurstöðu nefndarinnar. (Forseti hringir.) Það var ekki einu sinni einhugur í nefndinni um niðurstöðuna.