135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

framboð Íslands til öryggisráðsins.

[15:51]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Framboð Íslands til öryggisráðsins er norrænt framboð og það er stutt af öllum Norðurlöndunum og öllum þeim ríkjum sem telja að minni ríki séu vel til þess fallin að gæta þjóðarréttar og mannréttinda í öryggisráðinu. Við erum einmitt vel til þess fallin og við erum tilbúin að axla þá ábyrgð. Framganga Norðurlandanna á alþjóðavettvangi nýtur sérstöðu og virðingar. Við þekkjum það öll sem höfum fylgst með.

Mig langar til að nota tækifærið hér til að fagna aukinni áherslu á mannréttindi hjá nýjum hæstv. utanríkisráðherra, áherslu á mannréttindi í utanríkisstefnu Íslendinga. Mannréttindi eru forgangsmál núna og það er eftir því tekið hve tónninn er breyttur. Ég ætla að nefna sem dæmi snöfurmannleg viðbrögð ráðherra þegar brotið var á íslenskum ríkisborgara í Bandaríkjunum nýverið. Íslendingar vilja að utanríkisstefnan sé mannréttindastefna og ég held að allir fagni nýjum áherslum. Fyrri ríkisstjórn með framsóknarmenn í utanríkisráðuneytinu steig mörg feilspor. Ég vil nefna sem dæmi stuðninginn við innrásina í Írak og margvísleg mannréttindabrot sem framin voru í nafni svonefnds stríðs gegn hryðjuverkum. Þar villtumst við Íslendingar á norrænu brautinni.

Ég tel ljóst að ríkisstjórnin tekur álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna alvarlega. Samfylkingin styður þjóðareign á auðlindum og hefur alltaf sett fyrirvara við einkaeignarrétt þeirra sem úthlutað er aflaheimildum. Það er einmitt sá réttur sem mannréttindanefndin telur brjóta gegn jafnræðisreglu samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Hér eru komin enn ein rökin fyrir því að tryggja þjóðareignarfyrirkomulag í stjórnarskránni.