135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

framboð Íslands til öryggisráðsins.

[15:56]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Eins og við vitum og fram hefur komið hefur mikið verið lagt í það að vinna að þessu framboði Íslands í öryggisráðið og ég vona svo sannarlega að okkur takist að ná þar kjöri. Hins vegar er hinn diplómatíski heimur mjög flókinn og margbreytilegur og ýmsir hagsmunir ráða því hvernig þjóðir heimsins taka afstöðu til þessa máls og því er ástæða til að vara við of mikilli bjartsýni vegna stuðningsloforða sem einstakar þjóðir gefa. En eins og fram hefur komið í þessari umræðu hefur ýmislegt komið upp sem getur veikt framboð okkar og skiptir þar auðvitað máli. Hér hefur t.d. verið nefnd sú ákvörðun að kalla friðargæsluliða heim frá Írak sem ég taldi ekki rétt. Hér hefur einnig verið rætt um álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Án þess að ég ætli að fara mikið út í það mál hér og nú verð ég að segja að mér fundust skilaboð stjórnarflokkanna mjög misvísandi, fyrstu viðbrögð þeirra. Það er slæmt og sendir ekki góð skilaboð út í alþjóðasamfélagið.

Hér hefur mikið verið rætt um mannréttindamál og Samfylkingin montar sig af því sem er ágætt út af fyrir sig að nú hafi verið mótuð góð stefna í mannréttindamálum í utanríkisráðuneytinu. Í fyrsta sinn sem það var gert var í tíð fyrrverandi utanríkisráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, svo ég taki þátt í toginu um hver gerði hvað á undanförnum árum, en ég vildi að það kæmi hér fram.

Virðulegi forseti. Um leið og ég lýsi því yfir að ég vonast til að við náum kjöri í öryggisráðið þá er ástæða til að vara við of mikilli bjartsýni. Ég óttast að framganga ríkisstjórnarinnar um þessar mundir hafi ekki verið til að styrkja framboð í öryggisráðið en ég vil nota tækifærið og óska utanríkisþjónustunni og öflugu starfsfólki hennar góðs gengis við að tryggja okkur sæti í öryggisráðinu. Það ágæta fólk sem þar starfar hefur lagt mikið af mörkum í þeirri baráttu og ég vona svo sannarlega að þar náist árangur.