135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[17:44]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ekki alveg hvað hv. þm. Grétar Mar Jónsson á við með skaðabótaskyldunni. Ég vænti þess að hann sé að vitna í álit mannréttindanefndarinnar. Telur þingmaðurinn þá að hver einasti þegn hins íslenska ríkis geti farið í mál við íslenska samfélagið út af því hvernig kvótakerfið eða fiskveiðistjórnkerfið okkar er? Þetta er náttúrlega mjög flókið og yfirgripsmikið mál og ég held að við getum ekki komið með svona staðhæfingar þó svo að mannréttindanefndin hafi skilað þessu áliti.

Ég hef sagt að ég er á þeirri skoðun að fiskveiðistjórnkerfið eins og það er í dag þurfi að vera öðruvísi og að því þurfi að breyta. Það er mín skoðun. Ég hef ekkert legið á henni. En meðan við erum með þetta kerfi og meðan það er svona og við erum að veiða innan þess þá er ekki hægt að búa til einhvern hóp sem— ja, nú er það komið upp í 160 og eitthvað tonn. Ef það verður svo 1.600 tonn, hvað tekur það langan tíma og svo framvegis? Við þurfum að huga að því. Það mundi skapa mjög mikla úlfúð og reiði meðal annars hjá smábátamönnum ef einhver einn hópur gæti farið að veiða í ofanálag fleiri hundruð eða jafnvel þúsundir tonna svona algjörlega utan við allt kerfið.