135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[17:48]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sjávarútvegsmál á Íslandi eru náttúrlega mjög yfirgripsmikil og viðamikil. Ef ég skil hv. þingmann rétt, er hann að segja að allir sem unnið hafa í fiskvinnslu og á sjó geti gert kröfu um að fá einhvern ákveðinn hluta af fiskstofnum eða veiðirétt og að ríkið sé jafnvel skaðabótaskylt gagnvart öllum þessum fjölda karla og kvenna. Ég hugsa að ef málaferlin færu fram, færi ríkið óbeint á hausinn, ef ég skil hv. þingmann rétt. Verði farið í breytingar á sjávarútvegskerfinu og lögum um stjórn fiskveiða held ég að við hljótum að átta okkur á því að slíkir hlutir verða ekki gerðir nema í sátt innan landsins. Það er ekki hægt öðruvísi. Það er ekki hægt að segja bara á einum degi: Nú skulum við leggja niður alla útgerð og byrja upp á nýtt. Það gerist ekki svoleiðis. Það gerist kannski í einhverjum draumum en svoleiðis gerist ekki í raunveruleikanum. Við verðum að vera raunsæ. Þótt við séum andvíg kerfinu og teljum það ranglátt getum ekki breytt fiskveiðistjórnarkerfinu einn, tveir og þrír, bundið alla báta og gert ráð fyrir — ég veit ekki hverju. Mér verður orða vant. (Gripið fram í.) Herra forseti. Þegar við tölum um þessi mál verðum við líka að sýna ákveðna ábyrgð gagnvart öllu samfélaginu og kerfinu, (GMJ: Gagnvart fólkinu í landinu.) gagnvart fólkinu í landinu, já.