135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:06]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við þær röksemdir sem hv. þingmaður dró hér fram enda er það nú þannig að við erum ósammála um grundvallaratriðin, fiskveiðistjórnarkerfið og hvernig standa eigi að því.

Ég vil leiðrétta það sem menn hafa verið að tyggja hér upp hver eftir öðrum og ég á nokkra sök á. Í ræðu minni vitnaði ég í umsögn Reiknistofu fiskmarkaðanna frá því í febrúar 2007 þar sem tekið er fram að einungis sá afli sem hafi farið í gegnum Reiknistofu fiskmarkaðanna sé 163 tonn. Þar segir: Er þetta aðeins hluti þess afla sem veiddur var undir formerkjum tómstundaveiða.

Hér er eingöngu um að ræða hluta af því sem hefur verið veitt undir formerkjum tómstundaveiða. Mér þykir leitt að menn hafa hver eftir öðrum, ég held nánast hver einasti ræðumaður á eftir mér, talað um að þetta væri sá heildarafli sem kæmi á land vegna tómstundaveiða. Ég tel mér skylt að leiðrétta það. Ég lagði á það sérstaka áherslu í ræðu minni að eingöngu væri um hluta að ræða. En það er augljóst mál að ef þessi atvinnugrein eflist eins og við gerum okkur vonir um verður um þúsundir tonna að ræða en ekki hundruð tonna.

Hæstv. forseti. Ég tel mjög mikilvægt að þetta komi hér fram.