135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:08]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir vakti máls á því magni sem um væri að ræða. Ég spyr: Hvernig stendur á því að það liggur ekki fyrir og kemur ekki fram í því ágæta frumvarpi sem hér er til umræðu, hvernig stendur á því að þær upplýsingar liggja ekki fyrir? Hvernig stendur á því að menn eru að velta fyrir sér hvaða magn gæti verið um að ræða? Ég hef engar upplýsingar til þess að sýna fram á eða hrekja eða staðfesta eitt eða neitt í því sambandi. Meðan ekki liggja fyrir staðfestar upplýsingar um það magn sem um er að ræða sé ég ekki annað en verulegur galli sé á því með hvaða hætti frumvarpið er lagt fyrir Alþingi. Það vekur athygli á þeim grundvelli sem ég var að tala um hér áðan, þegar verið er að skerða atvinnuréttindi manna liggur það ekki einu sinni fyrir um hve mikinn afla er að ræða. Það leggur enn þyngra vægi í þau sjónarmið sem ég rakti hér áðan varðandi atvinnufrelsisákvæðið.

Ég skil vel að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir skuli taka það fram strax í upphafi andsvars síns að hún ætli ekki að elta ólar við þær efnislegu og málefnalegu röksemdir sem ég hafði uppi gagnvart frumvarpinu. Það segir mér þó ekki annað en það að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hafi engar efnislegar röksemdir (ArnbS: Jú, jú, jú.) til andsvara gagnvart þeim röksemdum og sjónarmiðum sem ég setti fram, enda eðlilegt því að ég setti fram rétt sjónarmið.