135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:10]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ákvað að nýta andsvarið til þess að leiðrétta þann misskilning sem komið hafði fram í umræðunni.

Hér er um að ræða 163 tonn. Ef við horfum bara á þá tölu hefði hún skipt verulega miklu máli þegar við ræðum t.d. um úthlutun á byggðakvóta svo að menn horfi líka á hlutina þannig. Ekki hafa mjög mörg byggðarlög enn tekið upp þessa atvinnustarfsemi en eins og ég sagði í ræðu minni munu þau væntanlega gera það vegna þess að þarna eru ýmis tækifæri sem smærri byggðarlög hafa til að efla undirstöður atvinnustarfsemi sinnar.

Hv. þingmaður nefndi að hér væru ekki almannahagsmunir í húfi. Ég tel svo sannarlega að hér sé um almannahagsmuni að ræða. Það er skylda okkar að nýta fiskstofnana með sem hagkvæmustum hætti og það getum við ekki gert ef við höfum ekki stjórn á veiðunum, því sem við leggjum til að veitt verði úr fiskstofnunum hverju sinni. Því er algjörlega nauðsynlegt að þetta frumvarp komi fram, m.a. þegar við horfum til almannahagsmuna.

Auðvitað má segja að í eðli sínu sé það takmörkun á atvinnufrelsi þegar verið er að úthluta takmörkuðum auðlindum. En þarna er um meiri hagsmuni að ræða en svo að það hefur verið talið eðlilegt að setja um það löggjöf. Ég tel alls ekki að þar sé um að ræða brot á stjórnarskrárákvæðinu sem fjallar um takmörkun á atvinnufrelsi.