135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:18]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé það fyrir mér að fleiri hundruð Þjóðverjar, fleiri hundruð Bretar, fleiri hundruð Svisslendingar komi hingað og leigi báta, og hvað eiga þeir að gera? Eiga þeir að fara um borð í bátana og sigla þeim um hafið án allra … (Gripið fram í: Þeir gera það í dag.) ja, það þarf að taka á því máli. (Gripið fram í: … samþykkja í frumvarpinu?) Það þarf að taka á því að menn fari eftir lögum og reglum um siglingar um íslenskt haf. Það held ég að liggi alveg ljóst fyrir. Ég hef ekki vitað annað en menn verði að vera með pungapróf til að geta verið með trillur, verið skipstjórnarmenn á trillum. Kannski er ég að fara með einhverja vitleysu en ég vona að svo sé ekki. (Gripið fram í.) Það liggur í mínum huga algerlega ljóst fyrir að þeir sem sigla á 6 tonna bátum og jafnvel upp í 15 tonna bátum verða að hafa einhverja reynslu, einhverja þekkingu á siglingum, ströndinni og hafinu. Ég skil ekki ef mönnum dettur það í hug að það verði ekki að bregðast við því þegar. Við sjáum það líka að bátafjöldinn sem fer með ferðamenn á veiðar hefur snarvaxið og mun fara vaxandi vegna þess að þetta er vinsælt.

Út af því að við erum að tala um laxveiðiárnar þá vil ég taka það fram að ég fór að ræða um þær sem dæmi um það að erlendir ferðamenn sjá ekkert eftir því að greiða háar og miklar fjárhæðir fyrir það að fá að komast í íslenska náttúru og veiða þar (Gripið fram í: Mega þeir það?) og það er mjög jákvætt fyrir ferðaþjónustuna.