135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:34]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Miðað við þær upplýsingar sem nokkrir hv. þingmenn hafa komið hér fram með liggur alveg fyrir að þetta frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða er sett fram án þess að nauðsynlegra upplýsinga eða gagna hafi verið aflað um það hvaða þörf er á því að setja þau ákvæði sem hér er lagt til að nái fram að ganga með lagabreytingum. Það er dálítið bagalegt að þegar frumvarp sem þetta er lagt fram skuli ekki liggja fyrir hver hin raunverulega þörf er, hvað það er sem við erum að tala um í sambandi við þann afla sem hér fæst við tómstundaveiðar og hvort það sé yfir höfuð, eins og málin standa nú, einhver einasta röksemd fyrir því eða einhver þörf á því að setja lög til að takmarka eða setja einhverja tálmanir á þær veiðar sem hér er um að ræða.

Virðulegi forseti. Ég get ekki séð að í þeim umræðum sem hér hafa farið fram hafi að einu eða neinu leyti verið sýnt fram á það af stuðningsmönnum frumvarpsins að nokkur þörf sé á þessari lagasetningu. Eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson vék að áðan og ítrekaði sjónarmið sem hann talaði um líka varðandi sína fyrri ræðu erum við hér að tala um tálmanir, vandamál og aukna erfiðleika sem verið er að setja vaxandi atvinnugrein. Og til hvers, af hverju? Jú, einn hv. þingmaður talaði um að verið væri að auka réttlætið í þjóðfélaginu. Með hvaða hætti er réttlætið aukið? Jú, það er talað um að þar sem ákveðinn hópur þeirra sem veiða fisk þurfi að greiða fyrir aflann og fá kvóta sé það óréttlæti að þegar hingað koma menn sem eru að veiða sér til tómstundagamans skuli þeir ekki þurfa að sæta þeim viðurlögum sem fiskveiðistjórnarkerfið setur.

Nú má enginn misskilja, ég tel að sjálfsögðu mjög mikilvægt að í sambandi við þær tómstundaveiðar sem hér er verið að fjalla um verði að miða við að þær séu sem arðsamastar enda hefði þessi vaxtarbroddur í sambandi við ferðaþjónustuna ekki orðið til og ekki aukist og ekki dafnað nema vegna þess að það hefur sýnt sig að þær eru arðsamar. Hvernig stendur á því að þær eru það? Það stafar af því að það er verið að leigja því fólki sem vill stunda þessar veiðar aðgang að þeim bátum sem þarna er um að ræða til að komast í að stunda veiðarnar. Þeir peningar sem þannig koma í gegnum leiguna skila sér sem tekjur til þeirra sem leigja bátana sem síðan skilar sér sem skattstofn til ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar þar sem viðkomandi bátar eru gerðir út og þar sem eigendur þeirra eru.

Hvað ef nú verða settar þær tálmanir að þá muni verða hægt að leigja bátana á hærra verði? Nei, það er ekki um það að ræða. Það sem við erum að tala um er að þessir bátar eru leigðir á hæsta mögulega verði. Hvaða þýðingu hefur þá setning þessara laga? Jú, það er takmörkun á möguleikum manna til að stunda þá starfsemi sem hér er um að ræða, leigja báta sína til þeirrar starfsemi sem þarna er um að ræða, það er um að ræða tálmun á atvinnufrelsi þeirra. Það eru þau atriði sem ég geri sérstaka athugasemd við varðandi þetta frumvarp. Ég bendi á og vænti þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra komi inn á það í ræðu sinni á eftir hvernig almannahagsmunir geti að einhverju leyti komið til sem réttlæta skert atvinnufrelsi manna með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu.