135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:54]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í lögunum segir að það teljist veiðar í atvinnuskyni ef eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim sem nýta bátinn til veiða. Ég hef sagt það hér í ræðu að auðvitað eiga sjálfbær sjónarmið að liggja til grundvallar. Spurning mín er þessi og ég áréttaði hana, herra forseti, í minni ræðu hér: Á þetta að taka til allra veiða þar sem menn leigja bát, jafnt neysluveiða sem þessara veiða sem stundaðar eru á sjóstöng í miklu umfangi og eru atvinnurekstur? Ég er sammála hæstv. ráðherra um það. En ég geri greinarmun þarna á.

En frumvarpið og orðalag þess er svo rúmt að það tekur til alls þessa. Ég varpaði þeirri spurningu fram til hæstv. ráðherra hvort hann væri inni á því að setja einhver mörk, eitthvert lágmark þannig að það væri hægt að veiða að einhverju marki áður en veiðin yrði kvótasett. Það hafa ekki komið svör við því og reyndar fleiri þáttum sem ég hér nefndi.