135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[19:02]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stoðar ekkert fyrir hv. þingmann að tala þannig að hann hafi mikla trú á ferðaþjónustunni en þegar til stykkisins kemur kemur fram í máli hans að hann telji þetta atvinnugrein sem muni ekki sýna þá arðsemi að hún geti starfað innan vébanda þeirrar löggjafar sem gildir almennt um sjávarútveginn og sjávarútvegstengda atvinnustarfsemi.

Það sem ég vék hins vegar að á bloggsíðu minni var það að hv. þingmaður var spurður á fundi hvað ætti að gera til að efla atvinnulífið á Vestfjörðum og hann nefndi tvennt, annars vegar þetta ágæta mál sem er þessi nýja atvinnugrein sem ég held að hv. þingmaður sé alveg sammála mér um að sé ekki heilsársatvinnustarfsemi. Ferðamenn munu ekki koma yfir allan ársins hring og róa í svartasta skammdeginu á þessum bátum. Hitt sem hann nefndi var að fara með fólk um Strandir sem ég geri reyndar mjög oft. Ég veit líka hvers vegna, það gera menn á sumrin. Hv. þingmaður bauð með öðrum orðum mönnum bara upp á það að vinna hluta úr árinu. Það var framtíðarsýn hv. þingmanns og það er það sem ég mótmælti — eða gerði kannski pínulítið gys að. (JBjarn: … … gys að ferðaþjónustunni?)