135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[19:08]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Við umfjöllun um þetta mál í dag hefur verið minnst á álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Málið snerist um það hvort landsmönnum væri mismunað á ólögmætan hátt, og aukinn meiri hluti nefndarinnar komst að því að fiskveiðistjórnarkerfið bryti gegn 26. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, þ.e. jafnræðisreglu þessa samnings.

Það hefur verið vakin athygli á því að þessi jafnræðisregla gangi skemur en jafnræðisregla stjórnarskrárinnar auk þess sem við höfum ákvæði í stjórnarskránni um atvinnufrelsi. Álitaefnið í þessu máli snerist um það hvort kærendurnir yrðu skyldaðir að lögum til að greiða fyrir kvóta til að eiga kost á veiðum. Það var meginatriðið. Nefndin benti á þá sérstöðu málsins samkvæmt 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna að nytjastofnar á Íslandi væru sameign þjóðarinnar, grundvallaratriði. Síðan kemur fram í áliti nefndarinnar að mismununin hafi byggst á aðgerðum innan viðmiðunartímans, upphaflega sem tímabundnar aðgerðir sem kunna að hafa byggst á sanngjörnum og réttlátum viðmiðunum en urðu ekki aðeins varanlegar með setningu laganna heldur breyttu í einkaeign hinum upphaflega rétti til að hagnýta almannaeign. Það er kjarni þessa máls, framsalið o.fl. Það kemur enn fremur fram í þessu áliti að kvóta sem hefur verið úthlutað og er ekki lengur notaður af upphaflegum handhafa má selja eða leigja á markaðsverði í stað þess að skila honum aftur til úthlutunar til nýrra handhafa samkvæmt sanngjörnum og réttlátum viðmiðunum.

Mannréttindanefndin kemst að því að þetta fyrirkomulag og þessi háttur við innleiðingu standist ekki jafnræðisreglu 26. gr. þessa alþjóðasamnings. Svo einfalt er það. Nefndin kemst að því. Af því dreg ég þá ályktun, herra forseti, að þetta frumvarp standist ekki 26. gr. og ekki heldur jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Hér er lagt á þessa ferðaþjónustuaðila í útvegi með ferðamenn kröfur sem mannréttindanefndin leggst gegn.

Í refsirétti er talað um einbeittan brotavilja. Þetta frumvarp sýnir það, einbeittan vilja til að brjóta gegn mannréttindum. Það er höggvið í sama knérunn og áður. Jafnframt er brotið gegn 75. gr. stjórnarskrárinnar og hv. þm. Jón Magnússon hefur gert því ákaflega skýr skil. Hvar eru almannahagsmunirnir bak við þetta dæmi, hverjir eru þeir? Hvar er skilgreind þörf á þessum breytingum? Hvar liggur vandinn? Það er ekki ein einasta skýring í athugasemdum með frumvarpinu sem ber vott um að þörf sé á þessu, þ.e. að fiskstofnar á Íslandi séu í húfi, þetta breyti einhverri hagkvæmri hagnýtingu. Það er alveg ljóst, hæstv. sjávarútvegsráðherra, að þetta mun leggja stein í götu þessa atvinnuvegar. Það er einföld skýring á því. Þessum atvinnurekendum gekk illa í ágúst að leysa til sín kvóta og staðan hefur ekki batnað í þeim efnum þegar búið er að skerða þorskkvótann um 30%.

Það er líka afar erfitt að eiga við þetta að því leyti að þessir ferðamenn veiða margar og mjög mismunandi tegundir, lítið af hverri, þannig að skrifræðið í kringum allt þetta kerfi verður óskaplegt. Þegar því til viðbótar er verið að teygja kerfið inn í tómstundaveiðarnar, inn í kóðaveiðarnar, inn í þessar smáveiðar þar sem bátur fer á sjó til fuglaskoðunar eða náttúruskoðunar, hvalaskoðunar, og á leiðinni er stoppað í þrjú korter og færi rennt í sjó, brugðið upp sjóstöng eða notuð handfærarúlla, verður það verra. Það eru örfá kóð í boði, einhver kíló, og ég geri greinarmun á því sem ég kalla tómstundaveiðar — og jafnvel þótt ég leigi bátinn þeirra — og þeim veiðum sem eru stundaðar sem atvinnugrein í ferðaþjónustu. Þar tel ég að setja eigi mörk, setja skilsmörk, draga skil, ganga ekki of langt. Ég er hins vegar talsmaður þess að þetta mál verði allt skoðað út frá hinni sjálfbæru þróun, heildarmyndinni, markmiðum fiskveiðistjórnarlaganna og fyrir því ber hæstv. sjávarútvegsráðherra og flytjandi þessa frumvarps sönnunarbyrðina.