135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[19:26]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þau orð sem hv. þm. Karl V. Matthíasson viðhafði í lok ræðu sinnar, að við eigum að veita öllum sömu réttindi. Hvað þýðir það? Allir borgarar íslenska ríkisins eiga sama rétt til að veiða og nýta fiskinn í sjónum. Þar ættum við að geta náð saman.

Varðandi það sem hv. þingmaður talaði um, að það væri óréttlæti þegar trillan kæmi inn með tonnið annars vegar og hins vegar þegar leigubáturinn kæmi með tonnið. Hvar er óréttlætið í því? Hvar er vandamálið fólgið í því? Þegar trillan hefur hugsanlega fengið úthlutað gjafakvóta, hvar er þá óréttlætið í því þó að leigubátur komi inn með tonn sem þarf að nýta með ákveðnum hætti, þ.e. til eigin þarfa en að öðru leyti að skila? Ég sé ekki að það sé neitt óréttlæti eða vandamál sem þar skapast.

Síðan segir hv. þm. Karl V. Matthíasson að það sé einsýnt að settar séu sömu reglur um þessar veiðar. Það er akkúrat ekkert einsýnt því að við erum annars vegar að fjalla um veiðar í atvinnuskyni og hins vegar um bátaleigu til tómstundaveiða þar sem ákveðnar sérreglur gilda. Þess vegna er engin ástæða til þess og ekkert einsýnt að settar séu sömu reglur. Það eru miklu frekar röksemdir fyrir því að við höfum mismunandi reglur um þessi atriði.

Í lokin, hv. þm. séra Karl V. Matthíasson. Í guðspjöllunum er fjallað um verkamennina í víngarðinum þar sem allir fengu sína talentu, hversu snemma eða seint sem þeir komu. Það er einmitt ávísun og ábending um hversu óréttlátt kvótakerfið er, að þeir sem komu í biðsal kvótagreifanna árið 1983 njóta sérréttinda sem verkamennirnir sem vilja koma í víngarðinn fá ekki að njóta, (Forseti hringir.) andstætt boðuninni í guðspjöllunum.