135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[19:30]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn setja ekki lög og það er ekki réttlætanlegt að setja lög á grundvelli „ef og ef“ og „hefði og hefði“. Það verður að vera einhver réttmæt ástæða til lagasetningar. Það er ekki viðmiðun að hugsanlega gætu komið hingað svo og svo margir bátar til að stunda þær veiðar sem um ræðir. Kæmi til þess, eins og ég vék að í ræðu minni fyrr í dag, gæti verið ástæða til að setja sérstök lagaákvæði, þá gætu komið upp sjónarmið og skilyrði sem réttlæta það á grundvelli almannahagsmuna að setja slíkar skerðingar við atvinnufrelsinu sem um ræðir í lagafrumvarpinu sem hér er rætt.

Það er sem sagt spurningin um það hvort réttmætar eðlilegar forsendur séu fyrir hendi. Í dag eru þær ekki fyrir hendi. Það eru engir almannahagsmunir sem spurningin er um. Það er verið að setja tálmun án þess að nokkur grundvöllur, án þess að nokkur lagaleg forsenda sé fyrir því.

Ef einhver kaupir sér þennan rétt af þeim sem fékk honum úthlutað hefur mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sagt: Slíkt brýtur í bága við jafnréttissjónarmið mannréttindaákvæðis Sameinuðu þjóðanna. Eigum við þá að setja og ræða um löggjöf á grundvelli sjónarmiða sem eru andstæð viðhorfum og sjónarmiðum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna varðandi lagasetningu? Af hverju ættum við að gera það? Mannréttindanefndin hefur sagt: Þetta er óréttlátt. (Forseti hringir.) Ætlar þá virðulegur hv. þm. Karl V. Matthíasson að standa að því að halda óréttlætinu við (Forseti hringir.) og herða á því?