135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:39]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég held að öllum sé ljóst að bæði andvaraleysi og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar er eitt mesta vandamálið í efnahagsmálum núna. Síðustu fregnir af kjarasamningum sem eru fram undan eru þær að ríkisstjórnin vísaði á bug allri aðkomu að þeim eða hafnaði viðræðum við verkalýðshreyfinguna um þau atriði sem hún lagði þar áherslu á og vildi heyra afstöðu ríkisstjórnarinnar til. Það er sitt hvað að halda ró sinni í efnahagsmálum og að halda höndum í skauti sér og gera ekki neitt.

Ég hef þungar áhyggjur af þeim mikla kjaramun sem orðinn er í samfélaginu á milli hópa. Bilið á milli þeirra sem hafa háar tekjur og lágar hefur breikkað. Óstöðugleikinn í samfélaginu vegna þessa kemur alls staðar í ljós, á sjúkrahúsunum, leikskólunum, elliheimilunum, sérstaklega í umönnunar- og velferðargeiranum. Hvert er ráð ríkisstjórnarinnar þar? Jú, að einkavæða. Við skulum einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Það á að vera svo mikill efnahagsbati af því að reka heilbrigðisþjónustuna á viðskiptagrunni.

Ég vara við þessum áformum. Einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar er það versta sem mönnum getur dottið í hug að leggja út í núna og reyndar síðar. En einkavæðing í heilbrigðiskerfinu virðist vera höfuðmál ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins með hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde í broddi fylkingar. Það á að vera allra meina bót í efnahagsmálunum núna. (Forseti hringir.) Einkavæðinguna verður að stöðva, herra forseti.