135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:54]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hef verið fjarri þessum vettvangi um nokkurt skeið og er ánægður að sjá að hér hefur lítið breyst. Í efnahagsmálum segja stjórnarsinnar að allt sé í lagi á Íslandi en nokkur hætta og viðsjár stafi af atburðum handan hafs og stjórnarandstæðingar halda hinu gagnstæða fram. Hér hefur ekkert breyst nema það að það er ánægjulegt og skemmtilegt að heyra að framsóknarmenn eru farnir að hafa áhyggjur af efnahagsmálum og meira að segja ríkisfjármálum og formaður þeirra situr úti í sal og kallar fram í ræður hv. stjórnarsinna. Það er út af fyrir sig ánægjulegt.

Það er auðvitað ekki þannig að efnahagsmálin hafi tekið grundvallarbreytingum þegar Framsóknarflokkurinn fór úr ríkisstjórn og þau gerðu það ekki heldur við það að Samfylkingin kæmi inn í stjórnina. En það er þó, með ákveðnum aðferðum, með ákveðnum hætti, verið að vinna sig út úr þessum vanda, sem var öðruvísi í tíð síðustu ríkisstjórnar, og það er von til þess að við náum að lokum efnahagskerfinu á einhvern skynugugri grunn en áður.

Það eru vissulega viðsjár úti í löndum, það er fall á hlutabréfamarkaði í útlöndum og það hefur líka verið fall á hlutabréfamarkaði hér. Það er talað um að gengið hnígi eða falli. Kannski er það þó þannig, herra forseti, að einmitt í dag er það ekki það gengisfall sem við ættum að hafa mestar áhyggjur af sem gerist á hlutabréfamörkuðum erlendis heldur kannski það gengisfall sem hefur orðið hjá almenningi við viðburði undanfarins sólarhrings á stjórnmálamönnum og stjórnmálunum sjálfum.