135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:56]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í tilefni orða hv. þm. Guðbjarts Hannessonar sem kom inn á afleiðingar af niðurskurði í þorskkvóta sem birtast þessa dagana í uppsögnum sem fólk um landsbyggðina verður fyrir á hverjum staðnum á fætur öðrum. Á Dalvík liðlega 30 manns fyrir nokkrum dögum, á Akranesi um 60 manns í gær, á Þingeyri um 35 manns og upplýsingar liggja fyrir um að væntanlegar séu uppsagnir á Húsavík og á fleiri stöðum. Formaður Samtaka fiskvinnslustöðva hefur bent á að þegar séu um 300 uppsagnir komnar til framkvæmda síðan þessi ákvörðun var tekin og þess megi vænta að störfum í fiskvinnslunni einni fækki um 600. Að auki mun störfum í útgerð fækka um nokkur hundruð.

Þetta er veruleikinn sem menn standa frammi fyrir sem er pólitískur veruleiki, birtingarmynd ákvörðunar forustumanna ríkisstjórnarinnar, forustumanna Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sem trúa illa ígrunduðum ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar eins og nýju neti þrátt fyrir þær alvarlegu afleiðingar sem það hefur á lífskjör þúsunda landsmanna um land allt. Hvaða skilaboð er ríkisstjórnin að senda þessu fólki? Það á að fækka útgerðarmönnum, færa saman veiðiheimildir í örfá útgerðarfyrirtæki, fækka fólki í sjávarplássum landsins og hvert á það að flytja? Ég get vel skilið að hv. þm. Guðbjartur Hannesson sé órólegur yfir þessari þróun. En það þýðir ekki að segja það eitt að breyta eigi kvótakerfinu einhvern tíma seinna Það verður að gera það núna og það er ástæða til að gera það núna í ljósi þess álits sem við höfum fengið frá Sameinuðu þjóðunum, virðulegi forseti.