135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:58]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Sá er hér stendur kvað einna fastast að orði í hópi þingmanna síðasta haust þegar fjallað var um skerðingu á þorski og varaði við afleiðingunum og þótti sumum nóg um. En þær afleiðingar eru að koma fram fyrr en mátti reikna með og ekki á eftir að hvína í af fullri alvöru fyrr en líða tekur á veturinn. Þá mun koma í ljós að gífurlegar afleiðingar fylgja þeirri ákvörðun að skerða þorskveiðar með þessum hætti. Ég var því á móti því að þessar yrðu viðmiðunartölurnar og í þeirri trú að ekki væri rakalegur grunnur fyrir ákvörðuninni. En þetta er það sem blasir við og á eftir að versna. Menn verða að horfast í augu við það.

Það skiptir miklu máli að menn fari að hugsa út frá þeim nótum að þetta eigi eftir að versna og að það sé hægt að bregaðst við. Það hefur líka verið skoðun mín allan þennan tíma að stjórnarflokkarnir eigi að bregðast betur við í hinum svokölluðu mótvægisaðgerðum en gert hefur verið, bæði með tilliti til byggðanna, útgerðarinnar og fiskvinnslufólksins. Allt er þetta einn pakki í einni heild. Það stendur upp á okkur að bregðast betur við en gert hefur verið. Þannig er staðan einfaldlega á þessum drottinsdegi.