135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

efnahagsmál.

[14:00]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég staðfesti að hv. þm. Árni Johnsen talaði eins og við framsóknarmenn og varaði við þeim niðurskurði sem gerður var síðasta sumar. Það gerðu útgerðarmenn, það gerði fiskverkafólkið, það gerðu allir. Við vöruðum við þessum afleiðingum og nú allt í einu vaknar hv. þm. Guðbjartur Hannesson og fer að iðrast gerða ríkisstjórnarinnar. Þetta voru grafalvarlegar aðgerðir sem gripið var til og afleiðingarnar koma fyrr í ljós en spáð var. Fleiri hundruð sjómenn ganga í land og taka pokann sinn, skip eru seld í sjávarþorpunum og fiskverkafólkið missir atvinnu sína, kvótinn þéttist og fer á færri og færri hendur þannig að það er mjög alvarleg staða sem blasir við í sjávarþorpunum — allt á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það heyrðist ekki múkk nema frá einum manni í þeirra hópi á sumardögum þegar niðurskurðurinn átti sér stað og menn fullyrtu að það mundi hafa þær afleiðingar, líka á meðalafla með þorski, að hér yrði mikil vá fyrir dyrum. Mótvægisaðgerðirnar litu dagsins ljós — og voru grín. (Gripið fram í.) Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir að hæstv. sjávarútvegsráðherra væri kjarkmaður að ganga að byggðunum. Það var sorglegur dagur og þess vegna getur ríkisstjórnin enn tekið á í þessum málum. Hún getur yfirfarið stefnu sína, hún getur endurskoðað hana og unnið með fólkinu í sjávarbyggðunum. Ríkisstjórnin skildi þetta fólk eftir í lausu lofti. Það er hennar sök. Við framsóknarmenn vöruðum hana við (Gripið fram í.) af drenglyndi og heiðarleika, alveg eins og í efnahagsmálunum, frá því að ríkisstjórnin tók til starfa. Ég bið hv. stjórnarmenn (Forseti hringir.) að hlusta og segi við stjórnarsinna: Það hefur enginn bannað ykkur að vera vitrari í dag en þið voruð í gær.