135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið.

[14:03]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Allir sjávarútvegsráðherrar Sjálfstæðisflokksins frá 1991 hafa unnið markvisst að því að loka aðgengi annarra en þeirra sem fyrir voru í kvótakerfinu á hverjum tíma með því að festa í kvótakerfinu allar fisktegundir og loka þannig fyrir aðgengi yngri sem eldri sjómanna í þessa atvinnugrein sem ætti, eins og aðrar, að vera frjáls þeim sem hafa rétt til að sigla skipum og vakta vélar. Í 75. gr. stjórnarskrárinnar á að marka Íslendingum atvinnufrelsi eftir almennum reglum. Þar segir að setja megi skorður með lögum við atvinnufrelsinu krefjist almannahagsmunir þess. Í 65. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án þess að efnahagur eða staða fái ráðið almennum rétti til atvinnusóknar.

Réttur þeirra sem atvinnuréttinn hafa til að stjórna fiskiskipum er ekki virtur samkvæmt stjórnarskrá Íslands. Mönnum er mismunað og ætlað að kaupa eða leigja réttinn til fiskveiða af fámennum hópi þeirra sem var úthlutaður kvóti í flestum fiskstofnum á Íslandsmiðum. Þar með var mismunun þegnanna með sambærilega menntun til fiskveiða og atvinnuréttinda fest í sessi. Einstakir handhafar fengu kvóta úr sameign þjóðarinnar og frjálst framsal var tekið upp 1991 og leiga var innleidd sem nú er á okurverði. Þar með var það orðin staðreynd að mannréttindi voru brotin að þessu leyti á Íslandi og niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í máli þeirra félaga Arnar Snævars Sveinssonar skipstjóra og Erlings Haraldssonar varð sú að lög nr. 38/1999 stæðust ekki meðalhófssjónarmið.

Í áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna segir m.a. — og um leið bendir nefndin á sérstöðu málsins sem hér er til umfjöllunar. Annars vegar segir í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Hins vegar var mismununin byggð á aðgerðum innan viðmiðunartímans sem upphaflega var tímabundin aðgerð. Það kann að hafa verið sanngjarn, jafnvel réttlátur og hlutlægur mælikvarði en varð ekki aðeins varanlegur með setningu laganna heldur breytti það upphaflegum rétti til einkanota og að hagnýta almannaeign í einkaeign. Kvóti sem hefur verið úthlutað og er ekki lengur notaður af upphaflegum handhöfum getur verið seldur og leigður á markaðsverði í stað þess að afhendast aftur ríkinu til úthlutunar til nýrra handhafa samkvæmt sanngjörnum, réttlátum mælikvörðum.

Ríkið hefur ekki sýnt fram á að þetta fyrirkomulag og háttur við innleiðingu kvótakerfisins standist kröfur meðalhófssjónarmiða. „Þótt nefndinni sé ekki skylt að taka á því hvernig kvótakerfi á takmörkuðum auðlindum samræmist sáttmálanum sem slíkum ályktar nefndin að við þessar sérstöku aðstæður og í því tilviki sem hér er til umfjöllunar að þau eignarréttindi sem hinum upphaflegu kvótaeigendum voru veitt varanlega málshefjendum til tjóns séu ekki byggð á meðalhófssjónarmiðum.“

Forsætis- og sjávarútvegsráðherra hafa þegar svarað því að þeir sjái ekki sérstaka ástæðu til að breyta lögum sem orsaka mannréttindabrot. Ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra: Er það vilji sjávarútvegsráðherra að loka á allt jafnræði til fiskveiða og halda áfram að brjóta mannréttindi með því að hafna breytingu á lögum sem mætir niðurstöðum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna? Ætlar hæstv. sjávarútvegsráðherra að halda áfram að fjölga kvótabundnum fisktegundum, loka öllum aðgönguleiðum að atvinnugreinum sem tengjast fiskveiðinni eins og rætt var hér um í gær um sportveiðarnar? Á að loka fyrir sjóstangaveiðimót? Hvert ætla menn að fara í þessari vegferð?

Sjávarútvegsráðherra hlýtur að þurfa að svara því skýrt og skilmerkilega hvort það sé ætlun hans og núverandi ríkisstjórnar að festa kvótakerfið í sessi og loka öllum leiðum en líta ekki með neinum hætti til þeirra réttinda sem einstaklingar búsettir á Íslandi eiga í stjórnarskrárvörðum réttindum sínum til að velja sér atvinnu.