135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið.

[14:24]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir að hefja þessa umræðu um svo mikilvægt mál sem snýr að réttarríkinu Íslandi.

Þrátt fyrir stöðugar breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum hefur ekki náðst það meginmarkmið núgildandi laga að vernda fiskstofnana, um að stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra, um að treysta atvinnu, um að efla byggð í landinu. Þvert á móti hefur það stuðlað að hinu gagnstæða. Nú bætist við að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur sett fram álit um að kvótakerfið, grunnþættir kvótakerfisins, standist ekki stjórnarskrá.

Við þingmenn vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram hér frumvarp til laga um heildarendurskoðun á stjórn fiskveiða. Við höfum lagt til að núgildandi lög fái sólarlagsákvæði. Við höfum lagt til að sólarlagsákvæði verði 1. september 2010 en nú þegar skipi Alþingi nefnd sem fari í að endurskoða fiskveiðistjórnarlögin. Þetta frumvarp okkar smellpassar þeirri kröfu sem Sameinuðu þjóðirnar gera nú til okkar Íslendinga um endurskoðun kerfisins. Þessi tillaga okkar liggur hér fyrir og með hvaða hætti skal reyna að ná sátt í fiskveiðistjórnarmálum og uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar hvað það varðar.

Ég fagna orðum hv. þm. Karls V. Matthíassonar sem tók afdráttarlaust (Forseti hringir.) undir að það bæri að skoða fiskveiðistjórnarlögin með tilliti til álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og það skyldi gerast strax.