135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið.

[14:27]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir að taka þetta mál hér til umræðu. Vissulega voru það fréttir fyrir þjóðina og fréttir fyrir okkur þegar mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna dæmdi tveimur íslenskum sjómönnum í vil í máli þeirra gegn íslenskum stjórnvöldum vegna kvótalausra veiða. Ég hjó eftir því strax daginn eftir að umræddar fréttir bárust að hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði að hann tæki álitið alvarlega og hefði þegar hafið vinnu við að fara yfir álitið til að við áttuðum okkur á því hvaða afleiðingar það hefði og hvernig við þyrftum að bregðast við því. Það lá því strax fyrir á fyrsta degi að skoða þyrfti þessi mál líkt og hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hefur hér gert grein fyrir.

Sjómannasambandið hefur sagt að þetta sé umhugsunarefni fyrir allt fiskveiðistjórnarkerfið. Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur bent á að þetta kunni að hafa engin áhrif á íslenska fiskveiðistjórnarkerfið. Til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hafa hins vegar komið tveir prófessorar og ég spurði þá að því, virðulegur forseti, hvort ástæða væri til að endurskoða lögin. Annar þeirra taldi að rík ástæða væri til þess að endurvinna lögin og reyna að mæta þeim meginsjónarmiðum sem fram kæmu í nefndarálitinu og hinn taldi einnig að ástæða væri til að endurskoða lögin á grundvelli niðurstöðu og sjónarmiða mannréttindadómstólsins án þess að stefna í hættu hagkvæmni kerfisins og þeim mannréttindum sem aðilar hafa áunnið sér í kerfinu.

Ég minni á það sem stendur í stjórnarsáttmálanum að gerð verður sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrifum þess á þróun byggða. Við erum hér að horfa á meðalhófsreglu, jafnræðisreglu og auðlindaumræðu og ég tel að sú umræða sem er farin af stað, bæði í (Forseti hringir.) sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og í sjávarútvegsráðuneytinu, um niðurstöðu álitsins muni hafa það í för með sér að við skoðum lögin og endurrýnum í það sem í þeim stendur.