135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[14:47]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér breytingar á lögunum sem fela í sér ákvæði um nálgunarbann. Í umsögn um frumvarpið frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að ekki séu gerðar neinar efnisbreytingar á reglunum en það kemur hins vegar ágætlega fram að verið er að skýra ákveðin atriði.

Mig langar aðeins að gera það að umtalsefni hér — og það er rétt sem kom fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra að við erum með frumvarp til sakamála til meðferðar í allsherjarnefnd. Ég skil það svo að þetta mál um nálgunarbannið hangi algjörlega á því, að við þurfum að afgreiða þetta mál jafnhliða og ákvæði um nálgunarbann séu sett í sérlög. En áður var talið að þau gætu tilheyrt öðrum lögum sem menn hafa nú fallið frá.

Í 2. gr. kemur fram með skýrari hætti hvernig krefjast skal nálgunarbanns og fjallað um réttarstöðu þeirra sem biðja um nálgunarbann en lögreglan telur ekki að fara þurfi í slíkt, að réttarstaða þess einstaklings sé skýrð nánar. Það kemur hér fram að í athugasemdinni við 2. gr. að það sé lögreglan sem gerir kröfu um nálgunarbann og í gildandi reglum um þetta úrræði er ekki lýst frekar hvaða aðdraganda slík krafa geti átt. En af augljósum ástæðum er hún að jafnaði sett fram að undangenginni beiðni þess sem sætt hefur ógn eða ónæði af hendi annars manns, þótt lögreglan geti einnig borið fram kröfu að eigin frumkvæði.

Rétt þykir að gera reglur um nálgunarbann mun ítarlegri að því er þetta varðar með því að taka upp ákvæði um stöðu þess sem leitar til lögreglu með beiðni um að þess verði krafist, svo sem lagt er fram í nýmælum í 2., 3. og 4. málsl. 1. mgr. 2. gr. Síðan kemur hér: Nánar tiltekið er þar ráðgert að beinlínis verði mælt fyrir um heimild manns til að leita til lögreglu með rökstuddri beiðni um að krafist verði nálgunarbanns og beri lögreglu að taka afstöðu til beiðninnar svo fljótt sem verða megi, en þó aldrei síðar en innan tveggja vikna eftir að hún berst. Í lokamálslið 1. mgr. eru síðan gerðar tillögur um málsmeðferð í tilvikum þar sem lögregla teldi ekki efni til að setja fram kröfu, en það er gert til að tryggja betur réttarstöðu þess sem óskar eftir vernd með nálgunarbanni. Því er hér lýst að sá sem vildi njóta nálgunarbannsins fær heimild til þess að kæra ákvörðunina um þetta efni. Það yrði þá eftir sömu reglum og gilda um kærur ákvörðunar lögreglu um að fella niður rannsókn sakamáls.

Þar sem verið er að gera þetta mun skýrara — og ég tel að það sé mjög jákvætt, ég tel að málið sé í heild jákvætt, það er ekki verið að breyta miklu, en því litla sem verið að breyta er jákvætt. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í þessi mál fyrst verið er að skýra betur réttarstöðuna, hvort þess megi vænta að mörg slík tilvik komi upp. Á þetta sér oft stað? Mun oft reyna á það að lögreglan hafni því að einhver aðili sé verndaður með nálgunarbanni, að ef einhver slíkur aðili, ef hann fær ekki bannið, kæri það? Á hæstv. dómsmálaráðherra von á því að það reyni mikið á þetta ákvæði? Miðað við forsöguna eru það mörg tilvik þar sem þetta hefur komið upp? Eða eru þetta örfá tilvik?