135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[15:32]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er að finna nokkrar nýjungar eins og fram hefur komið í ræðu hæstv. ráðherra. Meðal þess eru ákvæði í 7. og 8. gr. frumvarpsins sem kveða á um að útlendingar sem hingað koma og vilja fá dvalarleyfi þurfi að hafa undirgengist læknisskoðun og í 8. gr. er því bætt inn sem nýju skilyrði fyrir grunnskilyrði dvalarleyfis að útlendingur samþykki að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins.

Ég vil fagna því að Samfylkingin hefur fallist á þau sjónarmið sem sett hafa verið fram í umræðunni að undanförnu, að rétt sé að huga að heilbrigðismálum eins og verið hefur um áratugaskeið á Íslandi. Ég minni á að fyrir síðustu alþingiskosningar, fyrir u.þ.b. ári, setti formaður Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, fram þau sjónarmið að rétt væri að heilbrigðisskoða þá útlendinga sem kæmu til Íslands frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins, nýjum ríkjum Evrópusambandsins, þegar nokkuð sterkar líkur væru á því að þeir kæmu frá svæðum þar sem berklar væru landlægir. Af þessu varð mikið fjaðrafok og formaður Frjálslynda flokksins var borinn þungum sökum sem voru algjörlega úr lausu lofti gripnar og óviðurkvæmilegar. Úr röðum Samfylkingarinnar urðu þessar árásir m.a. mjög harðar í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Ég fagna því þess vegna að Samfylkingin hefur í raun og veru fallist á þau sjónarmið sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson setti fram fyrir u.þ.b. ári.