135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[15:38]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur veit hv. þingmaður jafn vel og sú sem hér stendur að um er að ræða mun fleiri þætti en einmitt þetta atriði sem gagnrýnt var í málflutningi Frjálslynda flokksins fyrir síðustu kosningar. Það er mín skoðun að formaður Frjálslynda flokksins hafi algjörlega misst stjórn á mörgum í sínum flokki hvað þetta varðar. Það var aldrei gagnrýnt að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson væri skynsemisrödd í þessu ólguhafi andúðar í garð útlendinga sem varð á tímabili í þjóðfélaginu og þá ekki síst fyrir tilstuðlan Frjálslynda flokksins og aðila innan hans. Þetta vitum við hv. þingmaður mætavel og þeir sem fylgdust með þeirri umræðu.

Virðulegi forseti. Ég verð að fagna því að hv. þingmaður — og má ég líka segja að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur að mínu mati líka verið rödd skynseminnar innan Frjálslynda flokksins hvað varðar málefni útlendinga og hefur fengið ágjöf frá sínum eigin flokksmönnum, sinni eigin ungliðahreyfingu, fyrir skoðanir sínar, m.a. í þeim efnum, á síðum blaðanna og verið sakaður um að fylgja ekki flokkslínu Frjálslynda flokksins. Við skulum því, virðulegi forseti, halda okkur við efnið og fara saman í það að gera hér sem bestar breytingar á útlendingalögunum.

Þetta er auðvitað síhvikult verkefni, því lýkur aldrei. Samskipti okkar við útlönd taka stöðugum breytingum og það mun án efa verða breytingum undirorpið hvernig við tökum á móti erlendu verkafólki og nýjum íslenskum borgurum í nánustu framtíð.