135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[15:40]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til útlendingalaga. Það kemur fram að það hafa ekki verið gerðar verulegar breytingar með þessu frumvarpi en þó eru nokkur nýmæli hér og skerpt á ýmsum atriðum.

Ég held að menn hafi almennt tvö sjónarmið til grundvallar þegar mál af þessu tagi eru rædd. Í fyrsta lagi held ég að flestir telji mjög mikilvægt í hnattvæddum heimi þar sem hraðinn er mikill og menn vilja hafa talsvert frelsi, að fólk komist á milli landa tiltölulega óhindrað, bæði til þess að leita sér að atvinnu, taka þátt í að móta ný samfélög og tileinka sér nýja lífshætti, það er ákveðin krafa um það. Svo vill fólk auðvitað ferðast um sér til skemmtunar í tengslum við ferðaþjónustu. En fólk vill almennt geta flutt sig um set á milli landa og það er æ ríkari krafa um að slíkt geti gengið snurðulaust fyrir sig.

Á sama tíma er það hitt sjónarmiðið sem ég held að flestir séu líka sammála um, að ríki vilja ekki að landamæri þeirra séu það opin að þau geti ekki haft einhverja þokkalega stjórn á straumi fólks frá öðrum ríkjum inn í viðkomandi land. Það er ekki hægt að taka á móti mjög stórum hópum, t.d. í smáum samfélögum án þess að koma verulega til móts við slíkar aðstæður með mikilli uppbyggingu í þjónustu sem stundum getur verið erfitt að bregðast við. Ríki vilja heldur ekki að landamæri þeirra séu svo opin að þeir sem teljast til glæpamanna geti valsað frítt á milli án nokkurra hindrana. Þetta eru þau sjónarmið sem menn vilja hafa að leiðarljósi. Menn vilja hafa landamæri opin en á sama tíma lokuð. Þetta frumvarp tekur dálítið á þeim málum.

Upp á síðkastið hefur auðvitað orðið geysileg breyting á Íslandi varðandi hlutfall útlendinga í samfélaginu. Ég held að tæplega 10% af þeim sem eru á vinnumarkaði séu af erlendu bergi brotnir. Það er geysilega hátt hlutfall. Það er hærra hlutfall en við sjáum t.d. á Norðurlöndunum. Hér hafa orðið miklar breytingar á stuttum tíma og ég tel að við höfum getað tekið á móti þessum fjölda hér til vinnu á nokkuð ásættanlegan hátt.

Ef við horfum til nágrannaríkjanna þá hafa þar blossað upp talsvert miklar deilur um þessi mál og heilu stjórnmálaflokkarnir hafa verið stofnaðir meira og minna um þau og gert út á þau. Það er hægt að nefna bæði Danmörku og Noreg í því sambandi. Þar hafa verið harðvítugar deilur um málefni útlendinga. Um tíma var það þannig að maður gat varla opnað dagblað frá Norðurlöndunum án þess að sjá flennistórar fyrirsagnir sem gengu út á vandamál sem fólk taldi að útlendingar yllu í samfélögum þeirra og þetta var mjög harðdræg umræða.

Ég held að við höfum verið blessunarlega laus við slíkt á Íslandi og það þrátt fyrir þann stóra hóp fólks sem er af erlendu bergi brotinn á vinnumarkaðnum. Þetta er hópur sem er okkur mjög mikilvægur og hefur örugglega haldið uppi og sinnt mjög mikilvægum verkefnum í þjónustu í samfélaginu. Ég held að við gætum ekki sinnt, t.d. málefnum hjúkrunarheimila og sjúkrastofnana og mörgum öðrum þjónustustörfum ef við hefðum ekki tekið á móti talsvert stórum hluta útlendinga.

Þetta streymi, þetta mikla streymi sem ég vil kalla svo, hefur auðvitað valdið miklu álagi á stofnanir dómsmálaráðuneytisins, eins kom fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra. Mikið álag hefur verið á Útlendingastofnun og hún hefur stundum verið sökuð um að standa sig ekki nógu vel í stykkinu. Stofnunin er þó að breyta þjónustu sinni til móts við þær ábendingar sem hafa komið fram og þar innan dyra vilja menn gera betur, það er alveg ljóst miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið.

Það hefur auðvitað líka verið mjög mikið álag á lögregluna og fangelsin. En það er þó vert að taka fram að t.d. sá hópur útlendinga sem vistast í fangelsum endurspeglar engan veginn hóp útlendinga á vinnumarkaði. Það virðist vera hópur útlendinga sem er kominn einungis í þeim tilgangi að brjóta af sér meðan langflestir koma hingað í þeim tilgangi að vinna og til þess að taka þátt í jákvæðri uppbyggingu í samfélaginu.

Ég deili þeirri skoðun sem kom fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra að það er betra að vera innan Schengen en utan þó að það megi færa alls kyns rök fyrir því að sumt varðandi Schengen-samstarfið er þannig að það væri betra ef við hefðum haft meiri stjórn á því. En kostirnir við Schengen-samstarfið eru alveg örugglega fleiri en gallarnir. Í því samstarfi, sem auðvitað byggir á því að innan Evrópu vill fólk geta farið óhindrað yfir landamæri því það er auðvitað geysilegt streymi á milli landamæra í Evrópu, hafa á sama tíma hafa verið byggðar upp öflugar stofnanir til að reyna að sporna gegn glæpum. Til dæmis hefur samstarf milli lögreglu þessara ríkja verið stóraukið. Ég tel mjög mikilvægt að við tökum þátt í því starfi á eins markvissan hátt og unnt er.

Ég vil sérstaklega nefna bæði Europol og Interpol, það eru mikilvægar stofnanir sem við eigum að vinna með og ég veit að hæstv. dómsmálaráðherra hefur haft áhuga á þeim málum og sinnt þeim. Það má t.d. benda á árangurinn sem varð af því samstarfi þegar stærsta fíkniefnamálinu var uppljóstrað á Fáskrúðsfirði fyrir stuttu síðan en það samstarf sem varð á erlendum vettvangi með lögreglu og fleiri aðilum yfir landamæri á vettvangi þessara stofnana, sem ég nefndi áðan, varð til þess að málið var upplýst. Það var að mínu mati afar gott og alls óvíst að það hefði nokkurn tímann verið upplýst ef við hefðum ekki verið í slíku alþjóðasamstarfi.

Það kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að frumvarpið miðar í fyrsta lagi að því að samræma ákvæði útlendingalaga við ákveðin lög um atvinnuréttindi útlendinga. Það er boðað að hæstv. félagsmálaráðherra muni samhliða þessu frumvarpi leggja fram frumvarp til breytinga á þeim lögum þar sem m.a. er lagt til að fjölga flokkum atvinnuleyfa.

Það kemur líka fram hér að þetta frumvarp miðar að því að innleiða tilskipanir frá Evrópusambandinu. Samkvæmt því eru gerðar talsverðar efnisbreytingar er varða réttindi frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu, m.a. í samræmi við túlkun Evrópudómstólsins á ákvæðum um hann. Sem dæmi má nefna að dvalarleyfi til EES- eða EFTA-útlendinga eru afnumin en í þeirra stað er EES- eða EFTA-útlendingi gert að skrá sig hér á landi því rétturinn til dvalar er sjálfstæður en ekki háður svokölluðu skráningarvottorði eða dvalarleyfi.

Það er líka skerpt á réttindum fjölskyldumeðlima EES- og EFTA-útlendings til að koma með honum og dvelja hér á landi og svo eru settar skýrari takmarkanir gagnvart brottvísun EES- eða EFTA-útlendinga eða aðstandenda hans.

Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér að það eru miklu nákvæmari reglur settar inn í það varðandi komu og dvöl en nú eru. Það er minna svigrúm skilið eftir fyrir stjórnvaldsreglur. Það eru fjölmörg atriði tekin úr núgildandi reglugerð og sett inn í frumvarpið. Ég tel að það sé til bóta. Þá eru hlutirnir skýrir og minna svigrúm fyrir stjórnvald á viðkomandi tíma að grípa inn í. Stundum er það æskilegt. Stundum alls ekki. Ég held að í þessu tilviki sé mjög gott að hafa lögin skýr og svigrúm stjórnvalds minna. Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar sem koma til móts við athugasemdir frá eftirlitsstofnun EFTA.

Varðandi sérstakar greinar hér, þá vil ég nú fagna því sérstaklega að í 10. gr. eru ákvæði um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, það er verið að gera þær reglur skýrari. Það hefur heyrst, t.d. frá háskólunum að óskað hefur verið eftir auknu svigrúmi til að ráða fólk með sérfræðiþekkingu til kennslu. Ég held að þetta ákvæði sé mjög til bóta.

Svo vil ég líka minnast á 24 ára regluna sem er í 11. gr. Ég tel að það sé eðlilegt að gera breytingar á henni miðað við hvernig hún var og þetta er leið sem ég tel að við eigum að skoða. Þarna er hvert mál skoðað fyrir sig en t.d. í Noregi hafa menn getað sýnt fram á fjölmörg dæmi þar sem ungar stúlkur voru giftar gegn vilja þeirra af því þær höfðu ekki aðstæður til þess að hafna því. Ég tel að í stað þess að hafa svona fortakslausa 24 ára reglu eins og hún nú er þá sé eðlilegt að við skoðum hvert tilfelli. Ég er því mjög opin fyrir því að skoða breytingar á þeirri grein og í þá átt sem hér er verið að kveða upp úr um. En tel að við þurfum að skoða það betur í allsherjarnefnd.

Það er eitt atriði sem ég hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. dómsmálaráðherra um sem ég veit ekki hvort tengist frumvarpinu beint, ég hef ekki alveg áttað mig á því. Það er varðandi fanga en það hefur verið umræða um að opna þann möguleika að senda erlenda fanga heim til afplánunar í heimalandinu. Mér skilst að einhverjar þreifingar séu í gangi varðandi það atriði og hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í það. Á sama tíma skilst mér að önnur ríki hafi samið við ríki um að taka við sínum föngum en jafnvel greitt með þeim. Við yrðum þá væntanlega að gera það líka, ef það er rétt, eða gera einhvers konar samninga um slík atriði þannig að hugsanlega fari greiðslur á milli ríkja.

Ég hef áhuga á að spyrja dómsmálaráðherra aðeins út í þetta atriði, hvort hann geti upplýst okkur betur um þetta með fangana, hvort við munum sjá breytingar á því á næstunni að fangar afpláni í sínu eigin heimalandi. Ég ímynda mér að í flestum tilvikum sé það betra fyrir alla aðila, ekki síst fangana sjálfa. En hér eru útlendir fangar í þeirri stöðu að þeir skilja auðvitað litla sem enga íslensku og eiga þess vegna erfiðara uppdráttar en ella víða í samfélaginu og hvað þá í fangelsum landsins.

Fram undan er vinna með þetta mál í allsherjarnefndinni, þetta eru margar greinar, yfir 30 greinar, þannig að það mun taka talsverðan tíma en ég hlakka til að taka þátt í því starfi.